15 ára piltur var myrtur og þrír aðrir, þar á meðal lögreglumaður, særðust í skotárás eftir tónleika í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í gærkvöldi.
Fyrir skotárásina voru tvö önnur atvik sem ollu skelfingu á tónleikahátíð í Washingon, að því er Robert Contee lögreglustjóri sagði við blaðamenn. Á tónleikunum var Juneteenth, sem haldinn er 19. júní ár hvert, fagnað en dagurinn markar lok þrælahalds í Bandaríkjunum.
Lögreglan lokaði hluta af tónleikasvæðinu eftir atvikin af öryggisráðstöfunum en þrátt fyrir það var pilturinn skotinn til bana.
„Því miður geta svona hlutir gerst þegar þegar þú ert með ranga blöndu af fólki, eða fólk sem kemur með skotvopn,“ sagði Contee.
Lögregluþjónn og tveir aðrir sem særðust voru fluttir á sjúkrahús.
Ekki er ljóst hvort unglingurinn var skotmark en áður en hann var skotinn hafði lögreglan lagt hald á tvö ólögleg skotvopn í nágrenninu og var að eltast við einn til viðbótar með ólöglegt skotvopn.
„Þetta er ákveðið mynstur; ólögleg skotvopn í höndum fólks sem ætti ekki að vera með þau sem gera það að verkum að fólk sem vill njóta dagsins getur það ekki. Þetta er óásættanlegt,“ sagði lögreglustjórinn.
Á þessu ári hafa meira en 20 þúsund látist af völdum skotvopna í Bandaríkjunum, samkvæmt vefsíðunni Gun Violence Archive. Inni í þeirri tölu er sá fjöldi sem notar skotvopn til að taka eigið líf.