Rússar muni bæta í

Volodimír Selenskí gengur fram hjá byggingu sem skemmdist í átökum …
Volodimír Selenskí gengur fram hjá byggingu sem skemmdist í átökum í úkraínsku borginni Mykolaív. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti varaði við því í gær að Rússar væru líklegir til þess að bæta í „óvinveitta starfsemi“ sína í Úkraínu í þessari viku. Bíða stjórnvöld í Úkraínu nú eftir sögulegri ákvörðun Evrópusambandsins um stöðu landsins hvað varðar umsókn þess um aðild að Evrópusambandinu. 

Tæpir þrír mánuðir eru síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Selenskí telur að það hafi fáar jafn „örlagaríkar“ ákvarðanir verið teknar fyrir Úkraínu og sú sem hann býst við frá Evrópusambandinu í þessari viku.

„Einungis jákvæð ákvörðun er til bóta fyrir alla Evrópu,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu í gærkvöldi. 

„Augljóslega teljum við að rússneskar hersveitir muni bæta í óvinveitta starfsemi sína í þessari viku. Við erum að undirbúa okkur. Við erum tilbúin,“ sagði Selenskí. 

Rússneskar hersveitir hafa herjað á austurhluta Úkraínu vikum saman og reynt að ná Donbas-svæðinu á sitt vald eftir að hafa verið hraktar frá öðrum hlutum landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka