Heimavinnan reglufest

Í Noregi taka nýjar reglur um vinnu heima gildi 1. …
Í Noregi taka nýjar reglur um vinnu heima gildi 1. júlí þar sem meðal annars er gerð krafa um skriflegan samning um heimavinnuna. Ljósmynd/Istock.com

Frá 1. júlí gilda nýjar reglur norska vinnueftirlitsins, Arbeidstilsynet, um þá sem sinna starfi sínu í fjarvinnu heima í stofu og varð raunveruleiki vinnandi fólks um gervalla heimsbyggðina í kórónuveirufaraldrinum.

Marte Nubdal, ráðgjafi við samfélags- og menntavísindadeild Norska tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, telur jákvætt að fólk geti skipt um vinnuumhverfi og fái notið þess sveigjanleika sem vinna heima býður upp á.

„Það verður kannski fullmikið af því góða ef fólk vinnur alfarið heima en heimavinna getur komið sér vel þegar einbeitingar er þörf,“ segir Nubdal í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við gott sé að eiga þennan möguleika en hún starfar sjálf töluvert heima og þykir þægilegt.

Skriflegur samningur um heimavinnu

Nýju reglurnar frá vinnueftirlitinu skerpa hins vegar á ábyrgð vinnuveitenda gagnvart starfsmönnum sem nota heimaskrifstofu, hjemmekontor eins og Norðmenn kalla það, og segir Marte Mjøs Persen, ráðherra atvinnu- og félagsmála, í fréttatilkynningu um nýju reglurnar að starfsmenn skuli njóta sömu verndar heima og á vinnustaðnum með tilliti til starfsumhverfis og þess að sálfélagslegur stuðningur sé tryggður.

Þá skuli vinnutíminn vera sá sami, hvort sem unnið er heima eða á vinnustað, og um heimavinnuna skuli liggja fyrir sérstakur skriflegur samningur starfsmanns og vinnuveitenda en um þessar mundir hafa aðeins 18 prósent þeirra sem vinna heim gert slíkan samning.

Þá verður vinnueftirlitinu heimilt að hafa eftirlit með að nýju reglurnar séu í heiðri hafðar, þó ekki þannig að fulltrúar þess dúkki skyndilega upp á heimilum fólks tekur Trude Vollheim, forstjóri eftirlitsins, fram við NRK, heldur er eftirlitið gagnvart vinnuveitendum og að þeir uppfylli skilyrði.

Vinnustaðir þarfnist lífs

Í fyrra vann fólk heima að meðaltali um 59 prósent af vinnutíma sínum en það hlutfall hefur nú lækkað með rénandi faraldri og er nú 37 prósent. Þetta kemur fram í tölfræði frá ráðuneytinu og enn fremur að 50 prósent Norðmanna á vinnumarkaði eigi þess kost að vinna heima og af þeim starfi 53 prósent heima að minnsta kosti einn vinnudag í viku.

Nubdal hjá NTNU bendir þó á að meðalhófið verði ávallt best þegar fólk flytur starfsstöð sína heim einn eða fleiri vinnudaga í viku. „Mér finnst að setja þurfi einhver mörk, vinnustaðir þurfa á lifandi starfsumhverfi að halda,“ segir hún.

NRK

Nettavisen

FriFagbevegelse

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert