Klár í að verja borgina frá Rússum

Vadím Lyakh borgarstjóri.
Vadím Lyakh borgarstjóri. AFP/Anatolii Stepanov

„Borgin er klár í að verja sjálfa sig,“ segir Vadím Lykah, borgarstjóri Sloviansk í austurhluta Úkraínu. Útlit er fyrir að borgin verði brátt að átakasvæði en rússneskir hermenn eru nú á leið þangað úr norðri. 

Ástandið er „flókið vegna þess að víglínan færist sífellt nær okkur og er núna einungis í 15 til 20 kílómetra fjarlægð,“ sagði Lykah við AFP.

Vonandi „koma vopnin sem hersveit okkar þarf fljótlega,“ sagði Lykah. 

Baráttan hefur þegar haft áhrif á fólk í Sloviansk en t.a.m. er rennandi vatn á svæðinu af skornum skammti vegna harðra bardaga. Þá er rafmagn á svæðinu „óstöðugt.“

Fólk fyllir á vatnsbirgðir í Sloviansk. Þar er rennandi vatn …
Fólk fyllir á vatnsbirgðir í Sloviansk. Þar er rennandi vatn af skornum skammti. AFP

„Við trúum því að þau muni sigra rússneska úrhrakið

Fréttamaður AFP náði tali af þeim Valentinu og Yuri, íbúum í borginni, þar sem þau fylltu á vatnsbirgðir sínar í brunni.

Valentina og Yuri eru hjón á sjötugsaldri. Þau hafa áður orðið vitni að baráttu um yfirráð í Slóvíansk. Aðskilnaðarsinnar sem hliðhollir eru Rússum rændu völdum í borginni árið 2014 en úkraínskar hersveitir náðu henni aftur á vald sitt.

„Við trúum því að þau muni sigra rússneska úrhrakið,“ sagði Valentina.

Fjórðungur íbúa eftir

100.000 manns bjuggu í borginni fyrir stríð en nú er einungis fjórðungur íbúa eftir. Lykah sagði að áhersla sé lögð á að koma íbúum í burtu.

„En því miður hlustar fólk ekki alltaf,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka