Opinbera gögn í tengslum við árásina í Uvalde

Árásarmaðurinn skaut 19 börn og tvo kennara til bana.
Árásarmaðurinn skaut 19 börn og tvo kennara til bana. AFP/Brandon Bell

Myndir úr öryggismyndavélum í Robb-grunnskólanum í Uvalde í Texas sem sýna lögreglumenn bíða á gangi skólans, vopnaða rifflum og með óeirðaskildi hafa nú verið birtar opinberlega. Árásarmaður sem skaut 19 nemendur og tvo kennara til bana var þá inni í einni stofu skólans. BBC greinir frá.

Þá staðfesta gögn, sem tveir bandarískir fjölmiðlar segjast hafa undir höndum, að lögregla hafi komið fyrr á staðinn en áður hafði verið talið og verið þungvopnaðri.

Lögreglan hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki brugðist nógu skjótt við vegna árásarinnar, en hún hefur ekki tjáð sig um þau gögn sem nú hafa verið gerð opinber í fréttamiðlunum Austin American-Statesman og KVUE-TV. Þar kemur meðal annars fram að lögreglan hafi verið þungvopnuð inni í skólanum í um klukkutíma áður en hún fór inn í stofuna þar sem árásarmaðurinn var.

Gert er ráð fyrir að fleiri gögn verði gerð opinber við opin réttarhöld í öldungadeild þingsins í Texas síðar í dag.

Lögreglan var inni í skólanum í klukkutíma

Fréttamiðlanir tveir segja gögnin sýna að árásrmaðurinn hafi komið inn í skólann klukkan 11:33 fyrir hádegi og að ellefu lögreglumenn hafi komið á staðinn um þremur mínútum síðar. Lögreglmenn með óeirðarskildi hafi svo verið komnir inn í skólabygginguna klukkan 11:52. Í millitíðinni hafði lögreglustjórinn í umdæminu, Peter Arredondo, sagt að árásarmaðurinn hefði hleypt af mörgum skotum og að lögreglan væri aðeins vopnuð skammbyssum. Arrendondo reyndi einnig að tala við árásarmanninn og spurði hvort hann heyrði í honum.

Lögreglan fór loksins inn í skólastofuna þar sem árásarmaðurinn var klukkan 12:50 og skaut hann til bana.

Meðan á árásinni stóð hringdu nemendur skólans ítrekað í neyðarlínuna til að tilkynna um fjölda fórnarlamba. Þá reyndu foreldrar að komast inn í skólann en lögreglumenn meinuðu þeim inngöngu og einhverjir voru beittir piparúða, þeir yfirbugaðir og jafnvel handjárnaðir.

Biðu eftir höfuðlykli til að opna skólastofuna 

Þær upplýsingar sem börnin gáfu neyðarlínunni bárust ekki til lögreglumanna á vettvangi og biðu þeir eftir frekari liðsauka og vopnum áður en þeir létu til skarar skríða gagnvart árásarmanninum. Greint hafði verið frá því að lögreglumennirnir hefðu talið að árásarmaðurinn væri orðinn rólegur og hættur að skjóta, en gögnin sýna að skothljóð hafi ennþá verið að heyrast innan úr skólastofunni.

Lögreglan beið einnig eftir því að fá afhentan höfuðlykil til að opna skólastofuna, þrátt fyrir að ekki lægi fyrir að hurðin væri læst. Þá hafi einnig verið verkfæri á vettvangi til að brjóta hurðina niður.

Í gær kröfðust foreldrar barnanna sem létust í árásinni og fleiri afsagnar lögreglustjórans vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert