Dmitrij Muratov, rússneski ritstjóri óháða dagblaðsins Novaya Gazeta, bauð í gær upp gullmedalíu friðarverðlauna Nóbels sem hann hlaut í fyrra ásamt filippseyska blaðamanninum Mariu Ressa. Hæsta boð í medalíuna var 103,5 milljónir dollara, eða það sem nemur rúmum 13 milljörðum íslenskra króna.
Peningurinn mun renna í hjálparstarf UNICEF fyrir börn sem eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu.
Muratov og Ressa fengu verðlaunin fyrir „viðleitni til að standa vörð um tjáningarfrelsið“.
Uppboðshaldarinn hefur ekki gefið upp hver festi kaup á verðlaununum.
Í umfjöllun mbl.is um verðlaunaafhendinguna í fyrra segir um Muratov:
„Muratov ritstýrir óháða blaðinu Novaja Gazeta, sem kemur út tvisvar í viku, en því var komið á fót árið 1993 og hefur ritstjórnarstefna þess sjaldnast þóknast rússneskum stjórnvöldum. Meðal blaðamanna Novaja Gazeta var Anna Politkovskaja heitin, sem var skotin til bana í lyftu fjölbýlishússins er var heimili hennar í Moskvu á haustdögum 2006, en hún hafði þá meðal annars fært fréttir af mannréttindabrotum rússneskra hermanna og öryggissveita í Tétsníu.
„Við erum blaðamenn og verkefni okkar er skýrt – að greina staðreyndir frá hindurvitnum,“ sagði Muratov í ræðu sinni. „Hin nýja kynslóð blaðamanna veit hvernig hún á að vinna með gríðargögn [e. big data] og gagnagrunna [...] Fólkið fyrir ríkið eða ríkið fyrir fólkið? Það er helsta þrætuepli nútímans. Stalín leysti það mál með hreinsunum,“ sagði hann enn fremur.“