„Yfirborguð sníkjudýr“

Verkfall norskra flugvirkja hefur áhrif á starfsemi fjölda flugfélaga í …
Verkfall norskra flugvirkja hefur áhrif á starfsemi fjölda flugfélaga í Noregi og krefjast þeir ríflegrar samningshækkunar. Flugvirkinn Geir Ove Tømmerbakk gat ekki orða bundist á laugardag yfir hatursorðræðu virkra í athugasemdakerfum norskra fjölmiðla. AFP

Verkfall norskra flugvirkja í Norsk Flytekniker Organisasjon, NFO, hefur kveikt strauma haturs og köguryrða á samfélagsmiðlum Norðmanna og þótti Geir Ove Tømmerbakk, flugvirkja í Bodø í Nordland-fylki, mælirinn að lokum fullur og lagði hann varnarræðu sína fram á Facebook á laugardag, daginn eftir að verkfallið hófst. Er þetta þar í:

„Í dag vöktu fréttir um verkfall flugvirkja okkur. Ég les í athugasemdum við fréttir að við séum yfirborguð sníkjudýr og það sem verra er, fólk heldur að við séum á svakalegum launum og sitjum bara í kaffi allan daginn. Þetta fólk veit ekki af öllum vöktunum og ferðalögunum sem einangra okkur frá fjölskyldum okkar, vinum og félagslífi.

Það veit ekki að með því að kvitta fyrir vinnu sína í loggbók flugvélar eru flugvirkjar ábyrgir fyrir að vélin (og öll neyðarkerfi) flytji farþegana örugga til síns áfangastaðar. Ég sá mynd af flugstjórnarklefa með textanum „Ef flugmaðurinn kann á alla takkana hvers vegna kannt þú ekki að nota stefnuljós?“ Flugmaðurinn kann á takkana, FLUGVIRKINN getur útskýrt hvað gerist í flugvélinni þegar ýtt er á takkana og hvað er að ef eitthvað virkar ekki sem skyldi.“

Skynjar lítinn samningsvilja

Ávarp flugvirkjans er mun lengra og ber hann þar hönd fyrir höfuð stéttar sinnar sem á í vök að verjast. Tømmerbakk hefur samþykkt að fjölmiðlar greini frá skrifum hans en kýs að vísa á Jan Skogseth, formann NFO, með frekari ummæli.

Skogseth þessi greinir fáglýjaður frá því í samtali við TV2 að honum hafi borist morðhótanir vegna verkfallsins. „Slíkt er mjög óþægilegt þegar maður beitir fyrir sig löglegum kjarabaráttuaðgerðum á borð við verkföll í samningaviðræðum,“ segir formaðurinn en 106 flugvirkjar á vegum félagsins hófu verkfall aðfaranótt laugardags, um fjórðungur félagsmanna.

„Nú er allt í járnum. Ég skynja mjög lítinn samningsvilja af hálfu loftferðadeildar NHO [Vinnuveitendasamtaka Noregs, Næringslivets hovedorganisasjon],“ segir Skogseth en á föstudaginn hefja 39 flugvirkjar í viðbót verkfall. Krafa félagsins er 18 prósenta launahækkun, nokkuð sem reyndar er fáheyrt á norskum vinnumarkaði en í Noregi ríkir eins konar þjóðarsátt um hóflegar launahækkanir gegn verðlagsstöðugleika í samfélaginu og er algeng prósentuhækkun norskra kjarasamninga gjarnan á bilinu tvö til þrjú prósent og almenn sátt þar um.

Stilli kröfum í hóf

Kveður formaðurinn það langt í frá notalegt að lesa um þær athugasemdir sem Tømmerbakk í Bodø gerir að yrkisefni sínu í skrifunum á Facebook. „Það er dapurlegt að heyra að fólk líti okkur þessum augum og greinilegt að þeir sem þar skrifa eru lítið inni í því sem við gerum í vinnunni,“ segir hann.

Loftferðadeild vinnuveitendasamtakanna NHO kveður kröfur stéttarfélagsins út úr kortinu. „Flugvirkjar ættu að stilla kröfum sínum í hóf og sætta sig við samninga á borð við þá sem strætisvagnabílstjórar, lögregluþjónar og hjúkrunarfræðingar hafa fengið,“ segir Torbjørn Lothe, deildarstjóri loftferðadeildar NHO, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Aðrir í samfélaginu hafa látið sér gott heita, það hafa flugvirkjarnir ekki gert,“ segir Lothe enn fremur.

NRK

NRKII (kröfur flugvirkja)

TV2

Facebook-skrif Tømmerbakks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert