Leikarinn Bill Cosby hefur verið sakfelldur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn 16 ára ungling í Playboy-setrinu fyrir tæpum 50 árum. Þetta er niðurstaða kviðdóms í Kaliforníu sem var opinberuð í gær.
Judy Huth, sem Cosby braut gegn, voru dæmdar 500 þúsund dala í skaðabætur, en það samsvarar um 66 milljónum kr. Hún var aðeins 16 ára gömul þegar Cosby braut á henni eftir að hafa kynnst henni á kvikmyndatökustað árið 1975. Hún er nú 64 ára.
Réttarhöldin hafa staðið yfir í rúmar tvær vikur en Cosby var ekki viðstaddur. Hann hefur hingað til neitað sök í málinu.
Samkvæmt lögmönnum Huth fylgdi Cosby Huth og vinkonu hennar Donnu Samuelsson, sem þá var 17 ára, að Playboy setri Hugh Hefners eftir að hafa kynnst þeim á kvikmyndatökustað.
Síðar hafi Huth verið ein með Cosby sem byrjaði að kyssa hana og gerði tilraun til að setja hendur sínar undir klæði hennar. Í framhaldinu hafi hann tekið niður um sig buxurnar sínar og neytt hana til að stunda kynlíf með sér.
Nathan Goldberg lögmaður Huth sagði að hún hefði í mörg ár reynt að bæla niður minningar um kynferðisofbeldið en að þær hefðu aftur komið upp á yfirborðið þegar aðrar konur fóru að ásaka hann um ofbeldi.
Huth hafði upphaflega höfðað málið í desember árið 2014 en það var lagt til hliðar á meðan ýmsar sakamálarannsóknir stóðu yfir.
Margar konur hafa ásakað Cosby, sem er nú 84 ára gamall, um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi en hingað til hefur hann ekki verið fundinn sekur. Árið 2018 var hann dæmdur í fangelsi í Pennsylvaníu fyrir að hafa byrlað konu ólyfjan og misnotað hana en sakfellingunni var síðar snúið við útaf tæknilegu atriði. Fékk hann því að ganga laus.