Eldur kviknaði í lendingarbúnaði farþegaþotu þegar hún var við það að lenda á alþjóðaflugvellinum í Miami í Bandaríkjunum í gær. Um hundrað farþegar voru um borð og voru þrír fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar eftir slysið. Engin dauðsföll eða alvarlegir áverkar hafa þó verið skráðir.
Rannsakendur eru nú á leið til borgarinnar til að rannsaka tildrög atviksins. Á myndskeiði, sem náðist af atvikinu, má sjá eld koma upp þegar farþegaþotan er að lenda og í kjölfarið rís upp svartur reykmökkur. Skömmu síðar má sjá viðbragðsaðila mæta á vettvang og farþegarnir um borð hlaupa úr vélinni.
Þotan var á vegum Red Air en samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu var vélin á leið frá Santo Domingo þegar tæknibilun kom upp. Þá hafi 130 farþegar verið um borð í vélinni og 10 manna áhöfn. Samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum voru farþegarnir þó 126 talsins.