Rauði krossinn og rauði hálfmáninn eru mættir á svæðið í Afganistan þar sem að minnsta kosti þúsund manns létust í nótt vegna jarðskjálfta en talan hækkar með hverjum tímanum sem líður.
Skjálftinn sem reið yfir var 6,1 að stærð og er með þeim mannskæðustu í sögunni. Afganski Rauði hálfmáninn með stuðningi Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) er nú þegar á staðnum og starfsfólk og sjálfboðaliðar frá nálægum deildum sinnir þar neyðarstarfi.
Afganski Rauði hálfmáninn starfrækir deildir í öllum 34 héruðum Afganistan og er með fleiri en 30.000 sjálfboðaliða úr röðum heimafólks sem sinnir ýmsu sjálfboða starfi. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, segir þetta sýna fram á mikilvægi þess að hafa fólk til staðar sem geti brugðist strax við.
Hægt er að segja að gráu sé bætt ofan á svart í Afganistan en jarðskjálftinn bætist ofan á aðrar hörmungar þar í landi. Meira en 50% Afgana eru í mikilli þörf fyrir mannúðaraðstoð vegna ýmissa hamfara eins og átaka, þurrka og annarra öfga í veðri tengdum hlýnun jarðar, gríðarlegra efnahagserfiðleika, laskaðs heilbrigðiskerfis og lélegra innviða.
Þá má einnig nefna að jafnrétti og önnur mannréttindi í landinu hafa sjaldan staðið jafn höllum fæti eftir að Talíbanar náðu völdum þar.
Biðlar Brynhildur til fólks að leggja sitt að mörkum í formi styrkja til Rauða krossins.