Heyra fólk syrgja ástvini í hverri götu

Viðbragðsaðilar að störfum í Afganistan vegna skjálftans.
Viðbragðsaðilar að störfum í Afganistan vegna skjálftans. AFP

„Nokkrar þyrlur komu til aðstoðar en ekki er ljóst hvað þær geta gert annað en að flytja líkin.“

Þannig lýsti einn íbúi í Afganistan ástandinu eftir öflugan jarðskjálfta í nótt þar sem að minnsta kosti þúsund manns létust.

Í frétt BBC kemur fram að björgunarsveitarmenn hafi í sumum tilfellum verið að grafa eftir líkum með berum höndum, ef þeir hafa yfirhöfuð náð að komast að rústum bygginga.

„Það var skömmu eftir klukkan 01:30 sem jarðskjálftinn varð. Ég var hræddur. Ég reyndi að finna vini mína. Sumir þeirra misstu ættingja sína. Sumir eru heilir á húfi en heimili þeirra eru eyðilögð,“ sagði Ahmad Nour.

Heyrist alls staðar í sírenum

„Það heyrist alls staðar í sírenum sjúkrabílanna. Ég talaði við fólk. Það er svo svekkt. Það missti ástvini sína. Þeir eru í ömurlegri stöðu.“

Vitni á vettvangi lýstu örvæntingafullum aðstæðum. „Í hverri götu sem þú ferð heyrir þú fólk syrgja ástvini sína,“ sagði blaðamaður á svæðinu.

Hinn 49 ára Alem Wafa ferðaðist til Paktika-héraðs til að hjálpa til við að draga þá sem voru fastir út. „Ég kom í morgun og fann sjálfur 40 lík, flest þeirra eru mjög ung börn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert