Læra á hríðskotabyssur og ætla að verja borgina

Konur við æfingar í borginni Zaporizhzhia.
Konur við æfingar í borginni Zaporizhzhia. AFP

Sífellt fleiri konur hafa fengið þjálfun í að skjóta úr Kalashnikov-hríðskotabyssum í úkraínsku borginni Zaporizhzhia.

Almennir borgarar geta núna tekið þátt í sérstöku æfinganámskeiði í borginni vegna stríðsins gegn Rússum, án endurgjalds. Áður voru einungis hermenn og aðrir þátttakendur í stríðinu þar í þjálfun.

Zaporizhzhia er í suðausturhluta Úkraínu, en rússneskar hersveitir hafa nálgast borgina að undanförnu.

Kennari leiðbeinir konu á æfingasvæðinu.
Kennari leiðbeinir konu á æfingasvæðinu. AFP

Natalia Basova, 47 ára, hugsaði sig ekki tvisvar um þegar henni gafst tækifæri til að skrá sig til æfinga í þar til gerðri miðstöð. „Fyrir stríðið kunni ég að nota vopn. Ég heimsótti skotæfingasvæði og fékk mikinn áhuga á þessu,“ sagði Basova, sem var stödd á æfingasvæðinu ásamt 29 ára dóttur sinni, Ulyönu Kiyashko.

„En núna þurfa allir að kunna þessa hluti,“ sagði hún.

AFP

Eiginmaður Basovu og sonur hennar eru í framlínu stríðsins, ásamt tengdasyni hennar. Á meðan þeir standa í ströngu, reyna þær mæðgur að læra eins mikið og þær geta um bardaga í borgum.

„Leiðbeinandinn okkar kennir okkur hvernig á að miða og nota vopn á réttan hátt,“ sagði hún. „Við vissum hvernig við áttum að skjóta en kunnum það ekki almennilega, þannig að maður slasi ekki þá sem eru með sér.“

Kyiashko sagðist ánægð með að geta lagt sitt af mörkum og bætti við: „Það er ekkert svo hræðilegt að vera með vélbyssu í höndunum.“

Ein kvennanna á æfingasvæðinu.
Ein kvennanna á æfingasvæðinu. AFP

Sergey Yelin, sem kom æfingamiðstöðinni á fót, segir að á námskeiðinu sé kennt hvernig eigi að standa, miða, hvernig tækni eigi að nota varðandi gikkinn, öndun og mismunandi aðferðir við að skjóta úr vopnum. Námskeiðið fyrir konurnar er 15 klukkustunda langt en Yelin segir að hægt sé að ná tökum á grunnþáttunum á fjórum til fimm klukkustundum.

„Við settum saman nokkrar taktískar æfingar fyrir almenna borgara vegna þess að við vitum að ef óvinurinn kemur inn í borgina, verður barist á götum úti,“ sagði Yelin, sem er 47 ára.

„Og það gerist venjulega við erfiðar aðstæður eins og í ónýtum byggingum, kjöllurum eða inni í verslunum.“

AFP

Önnur kona, sem hefur verið í þjálfun á æfingasvæðinu, Yana Piltek, bætti við: „Við verðum að vita hvernig á að gera þetta, bæði fyrir okkur sjálfar og fjölskyldur okkar vegna þess að við erum akkúrat við framlínuna,“ sagði hún og kvaðst ekki vera hrædd við að berjast og verja heimaborg sína.

„Við erum að æfa til að geta unnið bardaga í borginni. Ef af þeim verður, þá munum við ekki bregðast borginni.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka