Fatih Birol, framkvæmdastjóri alþjóðlegu orkustofnunarinnar (IEA), varar við því að Rússland gæti skrúfað fyrir gasið til Evrópu í vetur. BBC greinir frá.
Hann telur þó ekki líklegt að Rússar skrúfi algjörlega fyrir gasið en segir Evrópu þurfa að vinna að viðbragðsáætlun ef svo ber undir.
Undanfarnar vikur hefur fjöldi Evrópulanda fengið umtalsvert minna gas frá Rússlandi en þau bjuggust við. Rússneskir embættismenn neita að það hafi vísvitandi verið gert og segja að tæknilegum vandamálum sé um að kenna. Margir sérfræðingar efast um að það sé satt.
Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar var 40% af jarðgasi sem var flutt inn til Evrópu frá Rússlandi en nú stendur sú tala í 20%.
„Ég myndi ekki útiloka að Rússar haldi áfram að finna mismunandi vandamál hér og þar, og haldi áfram að finna afsakanir til að draga enn frekar úr gasflutningum til Evrópu og jafnvel hætta þeim alveg,“ sagði Birol við fréttastofu BBC.