Vara Rússa við hefndaraðgerðum gegn Litháum

Bátur á siglingu í Kalíngrad árið 2018.
Bátur á siglingu í Kalíngrad árið 2018. AFP

Þjóðverjar hafa varað Rússa við hefndaraðgerðum gegn Litháum fyrir að banna vöruflutninga í gegnum land sitt til rússnesku borgarinnar Kalíngrad.

Þjóðverjar „hafna af fullum krafti“ hótunum Rússa um „alvarlegar“ afleiðingar vegna stöðvunar vöruflutninga, sagði Steffen Hebestreit, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi.

Hann hvatti Rússa til að „grípa ekki til nokkurra aðgerða sem brjóta gegn alþjóðlegum lögum“.

Lit­há­en á aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og Atlants­hafs­banda­lag­inu en refsiaðgerðir þeirra koma í veg fyr­ir flutn­ing aðild­ar­ríkja á ýms­um vör­um til og frá Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.

Stjórnvöld í Moskvu, höfuðborg Rússlands, hafa krafist þess að Litháar aflétti banninu tafarlaust. Litháar segjast hafa sett bannið á sem hluta af refsiaðgerðum Evrópuríkja vegna stríðsins í Úkraínu.

Nikolai Patrushev, yfirmaður öryggisráðs Rússa, sagði í gær að hefndaraðgerðir myndu hafa „alvarleg, neikvæð áhrif á almenning í Litháen“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert