Þjóðverjar hafa varað Rússa við hefndaraðgerðum gegn Litháum fyrir að banna vöruflutninga í gegnum land sitt til rússnesku borgarinnar Kalíngrad.
Þjóðverjar „hafna af fullum krafti“ hótunum Rússa um „alvarlegar“ afleiðingar vegna stöðvunar vöruflutninga, sagði Steffen Hebestreit, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi.
Hann hvatti Rússa til að „grípa ekki til nokkurra aðgerða sem brjóta gegn alþjóðlegum lögum“.
Litháen á aðild að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu en refsiaðgerðir þeirra koma í veg fyrir flutning aðildarríkja á ýmsum vörum til og frá Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.
Stjórnvöld í Moskvu, höfuðborg Rússlands, hafa krafist þess að Litháar aflétti banninu tafarlaust. Litháar segjast hafa sett bannið á sem hluta af refsiaðgerðum Evrópuríkja vegna stríðsins í Úkraínu.
Nikolai Patrushev, yfirmaður öryggisráðs Rússa, sagði í gær að hefndaraðgerðir myndu hafa „alvarleg, neikvæð áhrif á almenning í Litháen“.