Fimm rúm fyrir fimmhundruð sjúklinga

Starfsmaðurinn segir 200 sjúklinga hafa látist í dag.
Starfsmaðurinn segir 200 sjúklinga hafa látist í dag. AFP

Muhammad Gul, starfsmaður á lítilli heilsugæslustöð í Gyan í Afganistan, segir 200 sjúklinga hafa látist af þeim 500 sem komu á stöðina í dag.

Aðeins eru fimm rúm á heilsugæslustöðinni en öll herbergin eru eyðilögð sökum jarðskjálftans sem varð í gær. BBC greinir frá.

Sagði hann að tveir læknar væru að manna bráðabirgðastöð utanhúss til að meðhöndla fólk sem gat hvergi annars staðar komist að.

„Það eru tugir manna sem þurfa tafarlaust á læknisaðstoð að halda. Ég held að þeir muni ekki lifa af nóttina,“ sagði hann.

Heilsugæslustöðinni í Gyan var upphaflega komið á fót til að takast á við minniháttar heilsufarsvandamál og vísa fólki á sjúkrahús í stórborgum til að fá frekari meðferð.

Frá því að talíbanar komust til valda í Afganistan á síðasta ári hafa margar alþjóðlegar hjálparstofnanir yfirgefið landið. Þá hefur heilbrigðiskerfið þurft að glíma við mikinn skort á birgðum og starfsfólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert