Tugþúsundir lestarstarfsmanna í verkfall

Frá Waterloo-lestarstöðinni í London.
Frá Waterloo-lestarstöðinni í London. AFP

Ferðalög með járnbrautalestum í Bretlandi voru aftur stöðvuð að miklu leyti í dag en um er að ræða annan af þremur dögum víðtækra verkfallsaðgerða í þessari viku. Aðgerðirnar eru þær stærstu í áratugi.

Tugþúsundir járnbrautarstarfsmanna mættu ekki til starfa í dag en þeir krefjast bættra launakjara og atvinnuöryggis.

Áætlað er að aðeins fimmtungur lestarleiða verði virkur í dag en auk þess verða farnar mun færri ferðir en vanalega. Ferðirnar hófust seinna en vanalega í morgun og þeim mun ljúka fyrr.

Bílaumferðin í Bretlandi er þyngri en vanalega.
Bílaumferðin í Bretlandi er þyngri en vanalega. AFP

Minnir á áttunda áratuginn

Mikil verðbólga er nú í Bretlandi og óttast er að gripið verði til verkfalla í öðrum atvinnugreinum. Segir í frétt AFP að aðgerðirnar minni á verkföll áttunda áratugarins í Bretlandi en þá lamaðist landið af bylgju verkfalla í ýmsum atvinnugreinum á meðan barist var við hömlulausar verðhækkanir.

Stéttarfélag starfsmanna járnbrautarlesta (RMT) fullyrðir að aðgerðirnar séu nauðsynlegar þar sem laun hafa ekki náð að halda í við verðbólgu í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert