Úkraína komin með stöðu umsóknarríkis

AFP/John Thys

Úkraína og Moldóva eru komin með stöðu umsóknarríkja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta var ákveðið fyrir skömmu á fundi leiðtoga ESB en ákvörðunin var viðbúin vegna innrásar Rússa.

Evrópusambandið hefur lagt fram lista yfir aðgerðir sem yfirvöld í Kænugarði þurfa að fylgja, m.a. að efla baráttuna gegn spillingu, áður en hægt verður að taka næsta skref í umsóknarferlinu. 

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segir þetta vera einstakt og sögulegt augnablik og telur hann framtíð Úkraínu vera innan Evrópusambandsins. 

Emmanuel Macron forseti Frakklands segir ákvörðunina vera sterk skilaboð til Rússlands.

Úkraína sótti um aðild að ESB skömmu eftir að innrás Rússa hófst. Moldóva og Georgía fylgdu í kjölfarið. 

Georgía hefur ekki fengið stöðu umsóknarríkis þar sem of mikil vinna var talin vera fyrir höndum áður en hægt væri að gera það. En landið hefur fengið stöðu ríkis sem á möguleika á því að verða umsóknarríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert