Verksmiðjur Tesla tapa milljörðum dala

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Elon Musk, forstjóri Tesla, segir að verksmiðjur fyrirtækisins í Þýskalandi og í Bandaríkjunum hafi tapað fleiri milljörðum dala vegna skorts á rafhlöðum og röskunum sem hafa orðið á vöruinnflutningi frá Kína. 

Musk segir að bílaverksmiðjurnar í Austin í Texas og í Berlín í Þýskalandi hafi verið „risavaxnir peningaeldofnar“.

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, að hertar sóttvarnaaðgerðir vegna Covid í Kína fyrr á þessu ári, þar á meðal í Sjanghæ þar sem stór Tesla-verksmiðja er staðsett, hafi gert framleiðendum gríðarlega erfitt um vik. 

Undanfarnar vikur hefur Musk talað um að búast megi við uppsögnum hjá Tesla. 

Tesla.
Tesla. AFP

„Verksmiðjurnar í Berlín og í Austin eru risavaxnir peningaeldofnar akkúrat núna. Þetta er í raun eins og meiriháttar skarkali, eða peningar sem eru að brenna,“ sagði Musk í samtali við samtökin Tesla Owners of Silicon Valley. 

Hann tekur fram að fyrirtækið þurfi að mæta gríðarmiklum kostnaði og á sama tíma afkasta verksmiðjurnar sáralitlu. 

Musk segir ennfremur að umræddar risaverksmiðjur hafi átt í miklum erfiðleikum með að auka framleiðslugetuna frá því þær opnuðu fyrr á þessu ári. 

Hann segir að verksmiðjan í Austin framleiði nú aðeins örfáar bifreiðar sem megi m.a. rekja til nauðsynlegra hluta sem þarf í rafhlöður bifreiðanna sem séu fastir á kínversku hafnarsvæði og ekki sé hægt að flytja sem sakir standa. 

Musk segir þó að stefnt sé að því að greiða úr þessari flækju eins hratt og auðið er en það muni fara mikil tími og orka í það verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka