„Áframhaldandi afturför“ á sviði mannréttinda

Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, faðmar hér grátandi mótmælanda við Hæstarétt …
Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, faðmar hér grátandi mótmælanda við Hæstarétt Bandaríkjanna eftir að dómur féll í dag. AFP

Ekki aðeins mun þungunarrof verða óaðgengilegt innan fjölda ríkja Bandaríkjanna eftir nýafstaðinn viðsnúning hæstaréttar á dómafordæmi máls Roe gegn Wade frá árinu 1973.

Þvert á móti gæti aðgengi að neyðarpillunni og tæknifrjóvgun einnig verið í hættu, sem og réttur samkynhneigðra og fólks af ólíkum uppruna til hjónabands.

Allt þetta er dæmi um þá skerðingu í mannréttindamálum sem nýafstaðinn viðsnúningur mun draga á eftir sér, að mati Silju Báru Ómarsdóttur, prófessors í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands.

„Það má búast við áframhaldandi afturför á sviði mannréttinda fyrir stóran hóp fólks,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Fjölmörg ríki eru búin að fá með þessu heimild til þess að skerða réttinn eins og þeim sýnist,“ segir hún.

Neyðarpillan og tæknifrjóvgun í hættu

Þar sem í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna telst þungun hafin við getnað, verði því hægt að banna afturvirkar getnaðarvarnir á borð við neyðarpilluna, auk þess sem aðstoð við að geta börn, svo sem tæknifrjóvgun, gæti líka verið í hættu að sögn Silju.

„Ef líf hefst við getnað þá er getnaður orðinn þegar fósturvísar eru búnir til. Ef fósturvísum er fargað þá er verið að drepa.“

Fyrirtæki muni því ekki geta tekið áhættuna og leggja upp laupana í umræddum ríkjum.

„Jákvæða hliðin, ef maður reynir að horfa á hana, er að meirihluti allra þungunarrofa í Bandaríkjunum á síðasta ári var framkvæmdur með lyfjum. Lyfin eru auðvitað aðgengilegri en aðgerð,“ segir hún.

Þar sé þó annar galli: „Það að nota póstþjónustuna til að panta lyf yfir ríkjamörk verður þá mögulega annað lögbrot.“

Fólk hafi því verið hvatt til að verða sér úti um lyf og hafa tiltæk ef ske kynni að einhvern tíman þurfi á þeim að halda.

Silja segir að allt bendi til þess að þungunarrofum fækki …
Silja segir að allt bendi til þess að þungunarrofum fækki ekki við að þau séu bönnuð heldur verði þau framkvæmd við óöruggari aðstæður. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Ekki lausn við að það vanti börn

„Þannig það er risastór hópur sem mun búa við skert réttindi,“ heldur Silja áfram og bætir við að allt bendi til þess að þungunarrofum fækki ekki við að þau séu bönnuð heldur verði þau framkvæmd við óöruggari aðstæður.

Rök sem íhaldsöfl í Bandaríkjunum hafa beitt gegn þungunarrofi, sem meðal annars segir í sérstökum lið nýfallins dóms, er að tala innlendra ættleiðinga muni hækka.

Silja þvertekur fyrir þá hugmynd: „Rannsóknir sýna hins vegar að það eru innan við 10% þeirra mæðra sem leitast eftir þungunarrofsþjónustu og fá hana ekki sem gefa barnið frá sér.

Þannig þetta er ekki nein lausn á því að það vanti börn.“

Fólk gegn fóstureyðingum fagnaði viðsnúningnum meðan aðrir grétu.
Fólk gegn fóstureyðingum fagnaði viðsnúningnum meðan aðrir grétu. AFP

Enginn planar þungunarrof fyrirfram

Öll gögn benda til þess að breytingarnar muni bitna mest á þeim efnaminnstu og jaðarhópum. „Fólk mun þurfa að ferðast langan veg ef það vill fá þessa þjónustu. Þannig það er innbyggð stéttaskekkja í þessu.“

Spurð hvort dómurinn muni verða til þess að fólk flytjist milli ríkja Bandaríkjanna eða jafnvel úr landi telur Silja svo ekki vera, þar sem enginn leggi á ráðin um þungunarrof fyrirfram.

„Þetta er ekki endilega heilbrigðisþjónusta sem fólk ætlar sér að nýta sér yfir ævina. Þú ert ekki að taka einhverja strategíska ákvörðun um eitthvað sem að síðan verður aðkallandi.“

Mikill fjöldi var kominn saman við Hæstarétt Bandaríkjanna í dag …
Mikill fjöldi var kominn saman við Hæstarétt Bandaríkjanna í dag ýmist til að mótmæla eða fagna. Ekki er von á að dómnum verði snúið við næstu áratugina. AFP

Óbreytt næstu áratugi

Þrír af sex hæstaréttardómurum sem dæmdu með viðsnúningnum voru skipaðir af Donald Trump þegar hann sat í embætti á síðasta kjörtímabili og var það yfirlýst stefna hans og Repúblíkanaflokksins að fá dómnum snúið við með því að skipa nýja dómara.

„Þau hins vegar sögðu öll í yfirheyrslum fyrir þinginu að þau litu á [dóminn] sem fastmótað dómafordæmi sem að ekki yrði hnekkt með nýjum dómi,“ segir Silja Björk. Því hafi þau í raun farið á bak orða sinna.

Allir þrír dómararnir eru á miðjum aldri og munu því sitja í embætti næstu áratugina, að öllu óbreyttu.

„Þannig það er ólíklegt að við sjáum miklar breytingar á næstu árum í gegn um dóminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka