„Áframhaldandi afturför“ á sviði mannréttinda

Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, faðmar hér grátandi mótmælanda við Hæstarétt …
Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, faðmar hér grátandi mótmælanda við Hæstarétt Bandaríkjanna eftir að dómur féll í dag. AFP

Ekki aðeins mun þung­un­ar­rof verða óaðgengi­legt inn­an fjölda ríkja Banda­ríkj­anna eft­ir ný­af­staðinn viðsnún­ing hæsta­rétt­ar á dóma­for­dæmi máls Roe gegn Wade frá ár­inu 1973.

Þvert á móti gæti aðgengi að neyðarpill­unni og tækni­frjóvg­un einnig verið í hættu, sem og rétt­ur sam­kyn­hneigðra og fólks af ólík­um upp­runa til hjóna­bands.

Allt þetta er dæmi um þá skerðingu í mann­rétt­inda­mál­um sem ný­af­staðinn viðsnún­ing­ur mun draga á eft­ir sér, að mati Silju Báru Ómars­dótt­ur, pró­fess­ors í alþjóðastjórn­mál­um við Há­skóla Íslands.

„Það má bú­ast við áfram­hald­andi aft­ur­för á sviði mann­rétt­inda fyr­ir stór­an hóp fólks,“ seg­ir hún í sam­tali við mbl.is.

„Fjöl­mörg ríki eru búin að fá með þessu heim­ild til þess að skerða rétt­inn eins og þeim sýn­ist,“ seg­ir hún.

Neyðarpill­an og tækni­frjóvg­un í hættu

Þar sem í fjöl­mörg­um ríkj­um Banda­ríkj­anna telst þung­un haf­in við getnað, verði því hægt að banna aft­ur­virk­ar getnaðar­varn­ir á borð við neyðarpill­una, auk þess sem aðstoð við að geta börn, svo sem tækni­frjóvg­un, gæti líka verið í hættu að sögn Silju.

„Ef líf hefst við getnað þá er getnaður orðinn þegar fóst­ur­vís­ar eru bún­ir til. Ef fóst­ur­vís­um er fargað þá er verið að drepa.“

Fyr­ir­tæki muni því ekki geta tekið áhætt­una og leggja upp laup­ana í um­rædd­um ríkj­um.

„Já­kvæða hliðin, ef maður reyn­ir að horfa á hana, er að meiri­hluti allra þung­un­ar­rofa í Banda­ríkj­un­um á síðasta ári var fram­kvæmd­ur með lyfj­um. Lyf­in eru auðvitað aðgengi­legri en aðgerð,“ seg­ir hún.

Þar sé þó ann­ar galli: „Það að nota póstþjón­ust­una til að panta lyf yfir ríkja­mörk verður þá mögu­lega annað lög­brot.“

Fólk hafi því verið hvatt til að verða sér úti um lyf og hafa til­tæk ef ske kynni að ein­hvern tím­an þurfi á þeim að halda.

Silja segir að allt bendi til þess að þungunarrofum fækki …
Silja seg­ir að allt bendi til þess að þung­un­ar­rof­um fækki ekki við að þau séu bönnuð held­ur verði þau fram­kvæmd við óör­ugg­ari aðstæður. Há­skóli Íslands/​Krist­inn Ingvars­son

Ekki lausn við að það vanti börn

„Þannig það er risa­stór hóp­ur sem mun búa við skert rétt­indi,“ held­ur Silja áfram og bæt­ir við að allt bendi til þess að þung­un­ar­rof­um fækki ekki við að þau séu bönnuð held­ur verði þau fram­kvæmd við óör­ugg­ari aðstæður.

Rök sem íhaldsöfl í Banda­ríkj­un­um hafa beitt gegn þung­un­ar­rofi, sem meðal ann­ars seg­ir í sér­stök­um lið ný­fall­ins dóms, er að tala inn­lendra ætt­leiðinga muni hækka.

Silja þver­tek­ur fyr­ir þá hug­mynd: „Rann­sókn­ir sýna hins veg­ar að það eru inn­an við 10% þeirra mæðra sem leit­ast eft­ir þung­un­ar­rofsþjón­ustu og fá hana ekki sem gefa barnið frá sér.

Þannig þetta er ekki nein lausn á því að það vanti börn.“

Fólk gegn fóstureyðingum fagnaði viðsnúningnum meðan aðrir grétu.
Fólk gegn fóst­ur­eyðing­um fagnaði viðsnún­ingn­um meðan aðrir grétu. AFP

Eng­inn plan­ar þung­un­ar­rof fyr­ir­fram

Öll gögn benda til þess að breyt­ing­arn­ar muni bitna mest á þeim efnaminnstu og jaðar­hóp­um. „Fólk mun þurfa að ferðast lang­an veg ef það vill fá þessa þjón­ustu. Þannig það er inn­byggð stétta­skekkja í þessu.“

Spurð hvort dóm­ur­inn muni verða til þess að fólk flytj­ist milli ríkja Banda­ríkj­anna eða jafn­vel úr landi tel­ur Silja svo ekki vera, þar sem eng­inn leggi á ráðin um þung­un­ar­rof fyr­ir­fram.

„Þetta er ekki endi­lega heil­brigðisþjón­usta sem fólk ætl­ar sér að nýta sér yfir æv­ina. Þú ert ekki að taka ein­hverja strategíska ákvörðun um eitt­hvað sem að síðan verður aðkallandi.“

Mikill fjöldi var kominn saman við Hæstarétt Bandaríkjanna í dag …
Mik­ill fjöldi var kom­inn sam­an við Hæsta­rétt Banda­ríkj­anna í dag ým­ist til að mót­mæla eða fagna. Ekki er von á að dómn­um verði snúið við næstu ára­tug­ina. AFP

Óbreytt næstu ára­tugi

Þrír af sex hæsta­rétt­ar­dómur­um sem dæmdu með viðsnún­ingn­um voru skipaðir af Don­ald Trump þegar hann sat í embætti á síðasta kjör­tíma­bili og var það yf­ir­lýst stefna hans og Re­públíkana­flokks­ins að fá dómn­um snúið við með því að skipa nýja dóm­ara.

„Þau hins veg­ar sögðu öll í yf­ir­heyrsl­um fyr­ir þing­inu að þau litu á [dóm­inn] sem fast­mótað dóma­for­dæmi sem að ekki yrði hnekkt með nýj­um dómi,“ seg­ir Silja Björk. Því hafi þau í raun farið á bak orða sinna.

All­ir þrír dóm­ar­arn­ir eru á miðjum aldri og munu því sitja í embætti næstu ára­tug­ina, að öllu óbreyttu.

„Þannig það er ólík­legt að við sjá­um mikl­ar breyt­ing­ar á næstu árum í gegn um dóm­inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert