Miðvesturríkið Missouri varð í dag fyrsta ríki Bandaríkjanna til að leggja bann við þungunarrofi, aðeins fáeinum klukkustundum eftir að efsta dómstig landsins sneri við áratugagömlu dómafordæmi sem veitti konum í öllu landinu rétt til þungunarrofs.
Frá þessu greinir dómsmálaráðherra ríkisins á Twitter, en hann birti einnig mynd af sér þar sem hann skrifar undir lögin þeim til staðfestingar.
Þrettán ríki, flest þeirra í suðurhluta Bandaríkjanna, hafa á undanförnum árum sett lög þess eðlis að þau taka gildi um leið og heimilt verður að nýju að banna þungunarrof. Í sumum ríkjanna ættu lögin að óbreyttu að taka gildi í dag.
Löggjöf ríkjanna er þó mismunandi. Í Idaho er þannig kveðið á um undanþágu í tilfelli nauðgana eða sifjaspells, en í Kentucky má aðeins veita slíka undanþágu ef líf konunnar þykir í hættu.
Í Louisiana gæti heilbrigðisstarfsfólk hlotið fangelsisdóma til allt að tíu ára fyrir að koma að þungunarrofi. Í Missouri er ramminn stærri, en þar getur refsingin numið fimmtán árum.
Nokkur ríki hafa áður samþykkt lög þar sem þungunarrof er bannað eftir sex vikna þungun, en það er áður en margar konur átta sig á því að þær eru ófrískar. Þau löög gætu einnig tekið gildi núna í breyttu réttarumhverfi.
Dómur réttarins frá því fyrr í dag veitir öllum fimmtíu ríkjunum heimild til að banna þungunarrof. Búist er við því að um helmingur þeirra muni gera það, með einhverju móti.
Í að minnsta kosti 22 ríkjum, aðallega í norðausturhluta landsins og á vesturströndinni, verður áfram heimilt að gangast undir þungunarrof. Búa þau sig nú undir að taka á móti straumi kvenna frá hinum ríkjunum vegna þessa.