Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur afnumið réttinn til þungunarrofs í landinu, í dómi sem kveðinn var upp rétt í þessu. Með dóminum er nærri hálfrar aldar gömlu dómafordæmi snúið við, sem fólst í niðurstöðu réttarins í máli Roe gegn Wade árið 1973.
Dómurinn hefur þá þýðingu að einstök ríki geta sjálf valið að leyfa eða leggja bann við þungunarrofi.
„Stjórnarskráin veitir ekki rétt til þungunarrofs; [fordæmum] Roe og Casey er hnekkt; og valdinu til að setja lög um þungunarrof er skilað aftur til fólksins og kjörinna fulltrúa þess,“ segir í niðurstöðu réttarins, sem birt var fyrir skömmu.
Í kjölfar þessa dóms verður þungunarrof að líkindum bannað með lögum í mörgum ríkja Bandaríkjanna, jafnvel helmingi þeirra. Er þá um að ræða ríki á borð við Georgíu, Suður-Karólínu, Tennessee, Texas og fleiri ríki.
Samkvæmt gögnum sem tekin hafa verið saman hefði bann við þungunarrofi mest áhrif á ungar konur, konur sem eru undir fátæktarmörkum og svartar konur, en konur í þessum hópum þykja tölfræðilega líklegastar til að nýta sér réttinn til þungunarrofs.
Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna frá 22. janúar 1973, og allt til dagsins í dag, hafa konur átt rétt á að láta rjúfa þungun þar til fóstur hefur náð þeim þroska að geta lifað sjálfstæðu lífi utan líkama konunnar, en það er áfangi sem fóstur ná yfirleitt á 22.-24. viku.
Úrskurðurinn hefur verið gífurlega umdeildur í Bandaríkjunum og margoft hefur verið reynt að fá honum hnekkt eða þá að fá réttinn til þess að þrengja túlkun sína.
Réttur til þungunarrofs hefur átt undir högg að sækja í Bandaríkjunum síðustu misseri og hafa mörg ríki viljað setja strangar reglur sem gerir konum erfiðara að fara í þungunarrof.