Hæstiréttur heimilar bann við þungunarrofi

Stuðningsfólk banns við þungunarrofi í faðmlögum fyrir utan Hæstarétt í …
Stuðningsfólk banns við þungunarrofi í faðmlögum fyrir utan Hæstarétt í dag. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur afnumið réttinn til þungunarrofs í landinu, í dómi sem kveðinn var upp rétt í þessu. Með dóminum er nærri hálfrar aldar gömlu dómafordæmi snúið við, sem fólst í niðurstöðu réttarins í máli Roe gegn Wade árið 1973.

Dómurinn hefur þá þýðingu að einstök ríki geta sjálf valið að leyfa eða leggja bann við þungunarrofi.

Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan réttinn, bæði til …
Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan réttinn, bæði til að fagna dóminum og mótmæla honum. AFP

Veiti ekki rétt til þungunarrofs

„Stjórnarskráin veitir ekki rétt til þungunarrofs; [fordæmum] Roe og Casey er hnekkt; og valdinu til að setja lög um þungunarrof er skilað aftur til fólksins og kjörinna fulltrúa þess,“ segir í niðurstöðu réttarins, sem birt var fyrir skömmu.

Í kjölfar þessa dóms verður þungunarrof að líkindum bannað með lögum í mörgum ríkja Bandaríkjanna, jafnvel helmingi þeirra. Er þá um að ræða ríki á borð við Georgíu, Suður-Karólínu, Tenn­essee, Texas og fleiri ríki.

Sam­kvæmt gögn­um sem tek­in hafa verið sam­an hefði bann við þung­un­ar­rofi mest áhrif á ung­ar kon­ur, kon­ur sem eru und­ir fá­tækt­ar­mörk­um og svart­ar kon­ur, en konur í þessum hópum þykja tölfræðilega líklegastar til að nýta sér réttinn til þungunarrofs.

Dómur réttarins var birtur í dag.
Dómur réttarins var birtur í dag. AFP

Frá árinu 1973 og til dagsins í dag

Sam­kvæmt niður­stöðu Hæsta­rétt­ar Banda­ríkj­anna frá 22. janú­ar 1973, og allt til dagsins í dag, hafa konur átt rétt á að láta rjúfa þungun þar til fóstur hef­ur náð þeim þroska að geta lifað sjálf­stæðu lífi utan lík­ama kon­unn­ar, en það er áfangi sem fóst­ur ná yf­ir­leitt á 22.-24. viku.

Úrsk­urður­inn hefur verið gíf­ur­lega um­deild­ur í Banda­ríkj­un­um og margoft hef­ur verið reynt að fá hon­um hnekkt eða þá að fá ­réttinn til þess að þrengja túlk­un sína.

Rétt­ur til þung­un­ar­rofs hef­ur átt und­ir högg að sækja í Banda­ríkj­un­um síðustu miss­eri og hafa mörg ríki viljað setja strang­ar regl­ur sem ger­ir kon­um erfiðara að fara í þung­un­ar­rof.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka