Hvetur farþega til að gera ráð fyrir töfum

Þeir sem ætla sér að innrita farangur eru hvattir til …
Þeir sem ætla sér að innrita farangur eru hvattir til að mæta fyrr. AFP

„Mætið snemma,“ eru ráð yfirmanns Evrópusviðs í Alþjóðaráði flugvalla (ACI). Flugvellir um allan heim eiga í erfiðleikum með að mæta snarauknu álagi eftir heimsfaraldurinn. Einhverjar úrbætur eru áætlaðar um miðjan júlí.

„Þessi samblanda af skjótum bata á eftirspurnarhliðinni og mikilli manneklu er að valda verulegum vandræðum,“ segir Olivier Jankovec, yfirmaður Evrópusviðs ACI. 

Hann bendir á að vandræðin komi upp hvert sem litið er, frá flugvallarstarfsemi til starfsemi flugfélaga, flugafgreiðslu, lögreglu á flugvöllum og við landamæravörslu. 

Vandræði hafa t.a.m. komið upp hvað varðar flugferðir til og frá Íslandi að undanförnu. 

Komandi helgi krefjandi

„Þetta gengur samt upp. Það er mikilvægt að farþegar séu í góðum samskiptum við flugfélögin um það hvenær þeir eigi að vera komnir á flugvöllinn, og búa sig undir að mæta fyrr en venjulega til þess að tryggja að þeir hafi tíma til þess að fara í gegnum allt kerfið, sérstaklega ef þeir eru að innrita farangur.“

Komandi helgi verður sérstaklega erfið, að mati Jankovec, í ljósi þess að flugmenn hjá ýmsum lággjaldaflugfélögum í Evrópu, séu á leið í verkfall. 

Sjá árangur um miðjan júlí

Á þingi alþjóðaráðs flugvalla í Róm, sagði Jankovec að flugvellir væru búnir að undirbúa aðgerðir sem kæmu til með að bæta ástandið, og ætlast er til að þær skili árangri um miðjan júlí.

„Það kemur inn viðbótarstarfsfólk um miðjan júlí, búnaður verður endurstilltur og innviðir flugvallarins verða lagaðir að þessu aukna streymi fólks, það verður líka tilbúið um miðjan júlí,“ segir Jankovec.

Hann á von á því að þröngt verði um farþega á flugvöllum, það verði lengri biðtímar, en farþegar ættu ekki að missa af flugunum sínum, svo vonandi nái allir á fyrirhugaðan áfangastað.

Flugvellir í sömu vandræðum og flugfélög

Þá varði hann verðhækkanir á þjónustu flugvalla, sem gagnrýnd hefur verið af Alþjóðasambandi flugfélaga. 

Flugvellir standi frammi fyrir sama vanda og flugfélögin þegar komi að verðbólgu, og benti hann á að fargjöld flugfélaga hafi einnig hækkað. 

„Launa- og orkukostnaður nemur 45 prósent af rekstrargjöldum okkar. Svo er verðbólgan að keyra upp verðið á aðföngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka