Vinsæl kráarkeðja í Indónesíu sætir nú rannsókn og er sökuð um guðlast. Ástæðan, að sögn lögreglu þar í landi, er kynningarefni frá keðjunni sem fór á dreifingu um netið.
Í færslu, sem nú hefur verið eytt, bauð kráin Holywings öllum þeim að nafni Múhameð eða María fría ginflösku á fimmtudögum.
Áfengi er talið ólöglegt undir íslömskum lögum og þrátt fyrir að áfengisdrykkja sé leyfð í landinu þá er hún litin illum augum af íhaldssömum múslimum.
Að minnsta kosti tvær ungliðahreyfingar í landinu hafa tilkynnt kránna fyrir guðlast, refsiverðan glæp sem getur valdið allt af fimm ára fangelsisvist samkvæmt lögum Indónesíu.
Stjórnvöld komu strax af stað rannsókn á kynningarefninu umdeilda auk þess sem þau réðu almenningi frá því að fremja skemmdarverk á krám keðjunnar.
Keðjan gaf frá sér yfirlýsingu þar sem hún baðst afsökunar og kvaðst stjórn fyrirtækisins ekki hafa verið upplýst um auglýsinguna.
„Við höfðum ekki í hyggju að tengja neina trú við auglýsinguna okkar og við biðjum almenning afsökunar frá okkar dýpstu hjartarótum,“ sagði í yfirlýsingu sem Holywings birti á samfélagsmiðlum í gær.
Færslan féll í grýttan jarðveg hjá netverjum og íhaldssömum múslimum, sem sökuðu kránna um að smána spámanninn Múhameð, sem og Maríu mey úr kristinni trú.
„Af hverju Múhameð? Af hverju ekki önnur nöfn sem tengjast ekki neinni trú?,“ sagði einn netverjinn.