Borgin Tsérnihív, sem staðsett er við landamærin í norðurhluta Úkraínu, varð fyrir árás frá landsvæði Hvíta-Rússlands snemma í morgun. Þetta fullyrðir úkraínski herinn í yfirlýsingu. AFP-fréttastofan greinir frá.
Í henni kemur fram að Tsérnihív hafi orðið fyrir flugskeytaárás. Um tuttugu flugskeytum hafi verið skotið frá landsvæði Hvíta-Rússlands og úr lofti. Bærinn Desna, sem er í útjaðri borgarinnar, hafi verið skotmarkið. Engar tilkynningar hafa borist um mannfall í árásunum.
Úkraínska leyniþjónustan segir að Rússar séu með þessu að reyna að draga Hvítrússa inn í stríðið, að fram kemur á Telegram.
„Árásirnar í dag má rekja beint til tilrauna stjórnvalda í Kreml til að draga Hvíta-Rússland inn í stríðið í Úkraínu og gera að þátttakanda,“ segir í færslu leyniþjónustunnar á Telegram.