Norska lögreglan skilgreinir skotárásina sem gerð var í miðborg Ósló í nótt sem hryðjuverk. Tveir létust í árásinni sem átti sér stað um klukkan eitt í nótt við skemmtistaðnum London Pub, sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks. Þá særðust yfir tuttugu einstaklingar í árásinni, þar af tíu alvarlega.
Maðurinn er talinn hafa skotið af vopni sínu á þremur stöðum.
Samkvæmt yfirlýsingu frá norsku lögreglunni var grunaður árásarmaður handtekinn skömmu eftir árásina. Hann er sagður vera 42 ára, af írönskum uppruna en norskur ríkisborgari. Hann hafði áður komist í kast við lögin fyrir minniháttar brot, eins og hnífaburð og fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Maðurinn er talinn hafa tengsl við íslömsk öfgasamtök.
Norsku Gleðigöngunni Oslo Pride, sem fara átti fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar, sem og öllum viðburðum henni tengdri, að segir í yfirlýsingu frá skipuleggjendum göngunnar. Segjast þeir fylgja skýrum fyrirmælum lögreglu.