17 fundust látin á skemmtistað

Borgin East London stendur við Indlandshaf.
Borgin East London stendur við Indlandshaf. Ljósmynd/Google maps

Að minnsta kosti sautján hafa fundist látin á skemmtistað í borginni East London í Suður-Afríku. Nokkur til viðbótar eru sögð slösuð. Fólkið er á aldrinum 18 til 20 ára.

Thembinkosi Kinana, lögreglustjóri héraðsins, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að enn sé verið að rannsaka hvað átti sér stað. Ekki væri hægt að setja fram neinar getgátur að svo stöddu.

Myndir sem birst hafa á samfélagsmiðlum og sagðar eru vera af þeim látnu, sýna lík án áverka sem liggja á víð og dreif um gólf skemmtistaðarins

Þá hefur staðarsjónvarpsstöð sýnt frá vettvangi þar sem sést hvar lögreglumenn reyna að róa fólk sem safnast hefur saman fyrir framan staðinn. Ættingjar hinna látnu hafa ekki enn fengið að sjá þau og óskað hefur verið eftir því að vettvanginum verði lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert