Leiðtogar G7-ríkjanna ætla að leggja bann við innflutningi á rússnesku gulli. Var þetta meðal þess sem rætt var á fundi þeirra í dag.
Fundurinn miðar einkum að því að því að sjá til þess að sjóður Rússa til að halda stríðinu áfram, tæmist, og styrkja á sama tíma varnir Úkraínumanna.
Þá var verðbólgan rædd sem og loftslagsváin, og mögulegar aðgerðir til að sporna við hvoru tveggja.
Leiðtogarnir hittust í þýsku ölpunum til funda, áður en þeir funda með aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins.
Biden lofaði vestræna samstöðu í opnunarávarpi sínu. „Pútín átti ekki von á þessu.“
Utanríkisráðherra Úkraínu hvatti G7-ríkin, í aðdraganda fundarins, til að þrengja enn meira að Rússum með viðskiptaþvingunum, auk þess sem hann óskaði eftir því að Úkraína fengi frekari stuðning í formi hergagna.
Með því að banna innflutning á rússnesku gulli er verið að útiloka annan stærsta útflutningslið Rússlands, sem hefur verið gífurleg tekjuauðlind fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að sögn Bidens.
Leiðtogar Bretlands og Frakklands telja að brátt opnist tækifæri fyrir Úkraínu til að snúa vörn í sókn.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands bætti við að hvers kyns tilraunir til að semja á þessu stigi málsins, myndu einvörðungu valda langvarandi óstöðugleika og tryggja Pútín möguleika á því að ráðskast með fullvalda ríki og alþjóðamarkaði um ókomna tíð.
Þá hvatti Emmanuel Macron, forseti Frakklands, olíuframleiðendur til að setja þak á verð olíunnar, til þess að tryggja að Rússland hagnist ekki á hækkandi olíuverði.
John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í Bandaríkjunum, segir að leiðtogar G7-ríkjanna vilji tryggja að Rússland verði fyrir hámarksskaða vegna stríðsins, á sama tíma og þeir vilja lágmarka áhrif þess á olíuverð.