Minnst tuttugu og einn unglingur fannst látinn eftir að hafa verið að skemmta sér á bar í borginni Austur-London, í Suður-Afríku. Enn er á huldu hvað olli dauða unglinganna, en engir áverkar fundust á líkunum á vettvangi.
Stærsti hluti hópsins voru nemendur í menntaskóla sem höfðu farið út á lífið að fagna próflokum.
Yfirvöld hafa útilokað að þrengsli hafi getað valdið dauða unglinganna, og þar sem engir líkamlegir áverkar voru á líkunum, leikur grunur á því að þeim hafi verið byrlað eitur. Tekin verða sýni og þau rannsökuð svo unnt verði að komast til botns í dánarorsök unglinganna.
Foreldrar unglinganna, sem og aðrir íbúar í grenndinni, hópuðust saman fyrir utan barinn í dag, þar sem líkin voru flutt af vettvangi.
Bheki Cele, yfirmaður lögreglumála í borginni, brast í grát í viðtali við blaðamenn eftir að hafa kynnt sér aðstæður í eigin persónu.
„Þetta er skelfileg aðkoma, þau eru nokkuð ung. Þegar manni er sagt að þetta séu þrettán og fjórtán ára krakkar, og svo ferðu og sérð þetta. Það fer með þig.“
Átta stúlkur og þrettán piltar létu lífið. Sautján þeirra fundust látin inni á barnum en hin létust á spítala.
Drykkjualdur á svokölluðum hverfisbúllum eru átján ár í Austur-London, Suður-Afríku. Eftirlitið er þó ekki strangt.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, lýsti yfir samúð sinni með fjölskyldum unglinganna. Hann hafði þá einnig orð á því að það væri áhyggjuefni að svo ungt fólk væri samankomið á stað, sem ætti aðeins að vera opinn þeim sem náð hafa átján ára aldri.
Yfirvöld hafa nú til skoðunar hvort breyta þurfi áfengiskaupaaldrinum í Suður-Afríku, en þar er áfengisneysla ein sú mesta sem fyrirfinnst í Afríku.