Lögreglan í Istanbúl, stærstu borg Tyrklands, beitti táragasi til að fæla í burtu hóp fólks sem safnaðist saman í Gleðigöngu í miðbæ borgarinnar. Tugir voru handteknir, þar á meðal fréttaljósmyndari AFP.
Stjórnvöld höfðu lagt bann við því að gangan yrði haldin át Taksim-torgi í hjarta Istanbúl en hópur fólks safnaðist saman í nágrenninu þar sem fjöldi vopnaðra lögreglumanna beið þeirra. Hundruðir manns söfnuðust saman með regnbogafána héldu göngunni áfram þrátt fyrir mótlæti lögreglumanna.
Lögreglan flutti þá handteknu í að minnsta kosti tvær rútur, þar á meðal Bulent Kilic ljósmyndara AFP en hann var einnig handtekinn í Gleðigöngunni á síðasta ári.
Þótt samkynhneigð sé ekki ólögmæt í Tyrklandi hefur hinsegin fólk þar í landi þurft að þola ofsóknir. Gleðigangan hefur farið fram í Istanbúl á hverju ári síðan 2003 en árið 2014 fór fram síðasta Gleðigangan sem ekki var bönnuð. Tugþúsundir tóku þá þátt í göngunni sem var ein sú stærsta í sögu landsins.