Aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna snéri við tæplega fimmtíu ára dómafordæmi og afnam rétt kvenna til þungunarrofs á föstudag, fyrirskipaði Joe Biden Bandaríkjaforseti heilbrigðisyfirvöldum að tryggja að þungunarrofspillan væri aðgengileg öllum bandarískum konum.
Áhersla verður lögð á að greiða aðgengi kvenna að þungunarrofspillunni í þeim ríkjum þar sem þungunarrof verður bannað eða löggjöfin hert verulega. Að minnsta kosti þrettán íhaldssamari ríki voru tilbúin með löggjöf sem bannar þungunarrof þegar dómurinn féll á föstudag.
Læknastofum sem framkvæmdu þungunarrof hefur þegar verið lokað í sumum þeirra. Búist er við að allt að helmingur ríkja komi til með að banna þungunarrof alfarið á næstu vikum eða herða löggjöfina verulega.
Þá er búist við að tekist verði á um aðgengi að þungunarrofspillunni fyrir dómstólum. Má ráð fyrir því að íhaldssamari ríki þar sem þungunarrof verður bannað, reyni jafnframt að koma í veg fyrir notkun lyfsins eða skerða aðgengi að því. Það gæti hins vegar reynst erfitt þar sem hægt er fá lyfið sent með pósti frá öðrum ríkjum.
19 ríki hafa þó gert kröfu um að pilluna megi aðeins afhenda konum í eign persónu á læknastofu, en matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna afnam hins vegar slíkar kvaðir á lyfinu á síðasta ári. Lyfið er er því hægt að fá uppáskrifað í gegnum síma og afhent í pósti.
Þungunarrofspilluna, eða mifepristone, er hægt að nota til að framkalla þungunarrof hjá konum upp að tíundu viku meðgöngu en í framhaldinu þarf að nota lyfið misprostol til að auka samdrætti.