Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari Morgunblaðsins, og Oksana Jóhannesson, ljósmyndari blaðsins, voru í Lysychansk í fyrradag og í gær.
Harðar árásir stórskotaliðs og flughers eru núna á borgina Lysychansk, sem stendur andspænis Sévérodonétsk. Áin Síverský Donéts skilur borgirnar að og allar brýr yfir ána hafa verið sprengdar. Úkraínski herinn fyrirskipaði skipulagðan brottflutning síns hers frá Sévérodonetsk fyrr í vikunni og borgin féll í gær. Lysychansk er því nú eina borgin í Lúhansk-héraði sem er enn í höndum úkraínska hersins.
Við komumst ekki alla leið til Lysychansk í dag þar sem eini vegurinn, nefndur Vegur lífsins, sem tengir borgina við umheiminn, sætti þungum árásum rússneska hersins. Aðrir vegir hafa um langt skeið verið fullkomlega ófærir vegna sprengjuárása. Stærsta olíuvinnslustöð héraðsins, rétt fyrir utan borgina, er í ljósum logum.
Stórskotalið úkraínska og rússneska hersins heyja nú einvígi um borgina. Rússar skjóta frá Sévérodonétsk, úr suðri og beita jafnframt flugher. Markmið Rússa er að umkringja borgina og klippa á birgðaflutninga til hennar. Þeir sækja nú fast að borginni úr suðri og nálgast útjaðar hennar. Það er mikil umferð stórskotaliðstækja, skriðdreka, brynvagna og hermanna til og frá borginni. Það er mögulegt að úkraínski herinn þurfi að hörfa frá borginni til að koma í veg fyrir að verða umkringdur, en mikið veltur á því hvort það takist að hægja á sókn Rússa úr suðri. Líklegt er að borgin falli í hendur rússneska hersins áður en langt um líður, þótt úkraínski herinn kunni að veita harða mótspyrnu.
Um 7000 manns eru eftir í borginni, en íbúafjöldinn var 100.000 fyrir stríð. Þar er ekkert símasamband, gas eða rafmagn. Vatn er sótt í brunna og í trukka slökkviliðsins. Sjálfboðaliðssveitir, úkraínski herinn og lögreglan hafa gert sitt besta til að sjá íbúum fyrir mannúðaraðstoð, en aðföng eru af mjög skornum skammti. Fjöldagrafir eru sunnan megin í borginni, en um skeið hefur verið of hættulegt að fara þangað vegna leyniskyttna rússneska hersins. Dæmi eru um það að íbúar hafi greftrað ættingja sem hafa fallið í sprengjuárásum í húsagörðum.
Sjálfboðaliðssveitir hafa annast brottflutning fólks nær daglega, þegar hægt er að komast til borgarinnar. Þeir sem ekki hafa flúið gefa ýmsar skýringar: Sumir neita að yfirgefa heimili sín, aðrir óttast að ræningjar muni láta greipar sópa um eignir sínar, enn aðrir óttast að lenda peningalausir á vergangi í öðrum borgum, en fólk hefur ekki getað nálgast laun og eftirlaun síðan stríðið hófst.
Mikil eyðilegging blasir við í borginni eftir sprengjuárásir og brunnin bílhræ eru á nær öllum vegum. Þegar hlé er gert á árásum sést fólk, jafnvel með börn, á göngu í borginni, yfirleitt til að sækja vatn eða aðföng á borð við eldivið. Fólk safnast saman í húsagörðum og eldar heitan mat á heimatilbúnum glóðarkerjum, eins og alls staðar í Úkraínu þar sem skortir gas og rafmagn.
Þegar sprengjuárásirnar þyngdust í gær leituðum við skjóls í kjallara ásamt íbúum fjölbýlishúss. Við færðum þeim aðföng sem við höfðum keypt, en við fórum til Lysychansk með skottið fullt af matvælum og nauðsynjavörum. Þegar sprengjuárásum linnti síðdegis komumst við frá borginni. Það þarf að keyra á miklum hraða á opnum vegarkafla milli Lysychansk og bæjarins Síversk, sem verður oft fyrir árásum á Vegi lífsins. Herflutningar á veginum geta stundum tafið för og það er varhugavert að vera nálægt hertólum, sem eru helstu skotmörk rússneska hersins.
Á leiðinni til baka, nálægt Slovyansk, rákumst við á hersveit sem var að koma af vígstöðvunum sunnan Sévérodonétsk. Herflutningabíllinn hafði stoppað til þess að flytja særða hermenn yfir í sjúkrabíl. Hersveitin hafði barist í meira en mánuð og var hún flutt á brott svo koma mætti í veg fyrir að hún yrði umkringd. Hermennirnir sögðu að miklir yfirburðir Rússa hvað stórskotalið snertir, hefði að lokum borið þá ofurliði. Þeir voru lúnir og þreyttir, en báráttuandinn var góður. Þegar þeir keyrðu á brott steyttu þeir hnefana á loft og hrópuðu til okkar: Slava Úkraíny! (Dýrð sé Úkraínu!) – Geroyam slava! (Dýrð sé hetjunum!) og Pútín!-Khújlo! (Pútín!-Skíthæll!)
Þegar við komum á okkar áfangastað í Kramatorsk undir kvöld fréttum við að rússnesk herþyrla hefði sprengt brú skammt frá Lysychansk á Vegi lífsins. Eina leiðin til að komast til og frá borginni er því nú krókaleiðir um illfæra sveitavegi og akra. Það er því ljóst að hjálparsveitir komast ekki lengur til borgarinnar og hörmungar gætu beðið þeirra sem eftir eru, nú þegar rússneski herinn herðir sókn sína að borginni.