Tala látinna á skemmtistað í borginni East London í Suður-Afríku hefur hækkað úr 17 í 20, en dánarorsök fólksins er enn óljós. Fólkið var á aldrinum 18 til 20 ára.
Samkvæmt yfirmanni öryggismála Eastern Cape-héraðsins lést þrennt á sjúkrahúsi og ástand tveggja til viðbótar er alvarlegt.
Drykkja er lögleg á börum og krám í Suður-Afríku en staðirnir eru stundum inni á heimilum fólks þar sem öryggisreglum er ekki framfylgt. Kráin sem um ræðir er staðsett í íbúðahverfi.
Oscar Mabuyane héraðsstjóri Eastern Cape sagði í sjónvarpsviðtali fyrir utan vettvanginn að hann hann skildi ekki hvernig 20 ungmenni hefðu getað týnt lífinu með þessum hættum. Þá fordæmdi hann ótæpilega drykkju áfengis.
„Þú getur ekki verið með svona starfsemi í miðju hverfi og ekki búist við því að ungt fólk prófi sig áfram,“ sagði hann jafnframt.
Fyrir utan krána, sem er á tveimur hæðum mátti sjá tómar flöskur utan af áfengi, hárkollur og fjólubláan borða sem stóð á „Til hamingju með afmælið“.