Bono, aðalsöngvari hljómsveitarinnar U2, komst árið 2000 að því að hann ætti hálfbróður, sem faðir hans hafði eignast utan hjónabands, án vitundar fjölskyldunnar. Bono er fæddur árið 1960.
„Ég á annan bróður, sem ég elska og dái, og vissi ekki að ég ætti.“
Bono lýsti upplifun sinni af þessari uppgötvun í viðtali við BBC, en hann hyggst gefa út ævisögu sína í lok árs.
Móðir Bonos lést árið 1974, þegar Bono var aðeins fjórtán ára, án þess að vita af því að eiginmaður hennar hefði eignast son utan hjónabands. Bono komst að því að hann ætti hálfbróður árið 2000 og spurði föður sinn svo út í það árið 2001.
„Ég spurði hvort hann hefði samt elskað móður mína og hann svaraði því játandi. Þá spurði ég hvernig þetta hefði gerst.“ Þá hafði faðir hans svarað á þann veg að svona gæti einfaldlega gerst, en hann væri að reyna að bæta upp fyrir það.
„Hann var ekki að biðjast afsökunar, einungis að lýsa staðreyndum, og ég er búinn að taka þær í sátt.“
Bono lýsir sambandi sín og föður síns, sem flóknu, en viðurkennir að hafa verið erfiður viðureignar sjálfur.
Þá kveðst hann hafa fundið sína fjölskyldu í hljómsveitinni U2, en frægðarsól þeirra reis á áttunda áratugnum og gáfu þeir út ýmis heimsþekkt lög á borð við „Vertigo“, „Beautiful Day“ og „I still haven't found what I'm looking for.“