Var í sambandi við íslamskan öfgamann

Bhatti birti færslu á Facebook fyrir skömmu þar sem hann …
Bhatti birti færslu á Facebook fyrir skömmu þar sem hann kallaði eftir morðum á hinsegin fólki. Ljósmynd/Skjáskot af nrk

Zaniar Matapour sem skaut tvo til bana og særði yfir tuttugu aðra fyrir utan hinsegin skemmtistað í Ósló í Noregi á föstudagskvöld, var í sambandi við þekktan íslamskan öfgamann, samkvæmt heimildum norska ríkisútvarpsins NRK.

Um er að ræða Arfan Bhatti sem er þekktur íslamskur öfgamaður í Noregi, en hann kallaði eftir morðum á hinsegin fólki í færslu á Facebook fyrir skömmu. Birti Bhatti mynd af brennandi regnbogafána og tilvitnun í hadíðu úr íslam sem er grundvöllur dauðarefsinga við samkynhneigð í íslamstrú.

Hvorki lögreglan né leyniþjónustan PST vildu tjá sig um færslur Bhatti á Facebook. En lögreglan skoðar hvort Matapour hafi verið í sambandi við fleiri íslamska öfgamenn.

Lögreglan skilgreinir árásina sem hryðjuverk og rannsakar hana sem slíkt. Matapour er 42 ára norskur ríkisborgari en er íranskur að uppruna. Lögreglan hafði vitað af honum um tíma, en hann hafði hlotið dóma fyrir minniháttar brot. Hann hefur verið ákærður fyrir manndráp, tilraun til manndráps og hryðjuverk.

Gleðigöngunni Oslo Pride sem átti að fara fram í gær var aflýst vegna árásarinnar en mikið fjölmenni var engu að síður í miðborg Ósló í gær og var regnbogafánum og rósum haldið á lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert