Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari búsettur í Kænugarði, segist hafa brugðið við eldflaugaárásir Rússa á borgina í gærmorgun, en hann segir að fjórar sprengingar hafi heyrst um klukkan hálf sjö í gærmorgun að staðartíma. „Ég og konan mín vöknuðum klukkan 6 um morgun við fyrstu sprengjuna, en stuttu eftir það heyrðum við í þremur öðrum sprengingum,“ segir Óskar við Morgunblaðið.
Eldflaugar Rússa lentu á fjölbýlishúsi í íbúðahverfi nálægt verksmiðjunni og á leikvelli í grennd við hverfið. Talið er að skotmark Rússa hafi verið ARTEM, vopnaverksmiðja sem staðsett er í Kænugarði.
Húsið hrundi að nokkru leyti og mikill eldur kviknaði, með þeim afleiðingum að reykjarský myndaðist yfir svæðinu. Einn lést í árásinni og að minnsta kosti fjórir hafa verið lagðir inn á spítala í kjölfar sprenginganna, en talið er að fleiri séu særðir. Árásin í dag var sú þriðja þar sem flugskeyti eru send á þetta tiltekna svæði.
„Ég fór strax af stað til að ná myndum, en þá hafði hópur blaðamanna safnast saman þar og Vitali Klitsjkó, sem greinilega var á svæðinu til að skoða aðstæður, kom til okkar til að svara spurningum,“ sagði Óskar en Klitsjkó, sem er borgarstjóri Kænugarðs, sagði að enn væri verið að grafa í rústum hússins eftir fólki.
Óskar greinir frá því að erlendur blaðamaður hafi spurt Klitsjkó hvort hann sæi ljós við endann á göngunum, en borgarstjórinn hefði svarað því neitandi. „Hann sagði erfitt að verjast óvini sem sendir flugskeyti inn á heimili fólks, inn í skóla og opinberar stofnanir, og því miður mjög erfitt að sjá enda á þessum átökum,“ segir Óskar.
Hann segir fólkið í borginni sé að reyna að halda í vonina, „Kænugarður er falleg borg og sumarið komið, en svo kemur svona árás og maður dregst aftur inn í stríðið.“