Hætti á fangelsisvist og barðist fyrir Úkraínu

Ken Rhee.
Ken Rhee. AFP

Ken Rhee starfaði fyrir suðurkóreska sjóherinn áður en hann skipti um stefnu og varð að samfélagsmiðlastjörnu á YouTube. Þegar stríð fór af stað með innrás Rússa í Úkraínu ákvað Rhee að yfirgefa heimalandið, jafnvel þó að með því hætti hann á fangelsisvist. 

Rhee segir að hann hefði framið „glæp“ ef hann hefði ekki brugðist við og boðið fram aðstoð vegna stríðsins. 

Til þess að komast til Úkraínu þurfti Rhee, sem er fyrrverandi herforingi, að brjóta suðurkóresk lög en ríkið hafði bannað borgurum sínum að ferðast til Úkraínu. Þegar hann kom aftur til Suður-Kóreu mættu honum 15 lögreglumenn. Rhee segist samt sem áður ekki sjá eftir ákvörðuninni. 

„Ég sé þetta svona: Ef þú ert á göngu meðfram ströndinni og sérð skilti við sjóinn sem segir „ekki synda“ en þú sérð einhvern að drukkna þá er það glæpur að hjálpa ekki,“ sagði Rhee um málið við AFP.

Hann fæddist í Suður-Kóreu en ólst upp í Bandaríkjunum. Þar hlaut hann herþjálfun en sneri síðar aftur til Suður-Kóreu þar sem hann starfaði fyrir herinn. 

„Ég hef hæfileikana, Ég hef reynsluna. Ég var í tveimur mismunandi stríðum og þegar ég fór til Úkraínu vissi ég að ég gæti hjálpað,“ sagði Rhee sem taldi að það yrði ekki tekið hart á broti hans gegn banni við ferðalögum til Úkraínu. 

Gagnrýndur af almenningi

Aftur á móti voru viðbrögð almennings í Suður-Kóreu á þá leið að Rhee hefði brotið lög. Þá sökuðu sumir Rhee, sem hefur um 800.000 fylgjendur á YouTube, um að nýta stríðið til þess að vekja athygli á sjálfum sér. Hann myndaði för sína til Úkraínu og birti efnið á samfélagsmiðlum.

Rhee í viðtali við AFP.
Rhee í viðtali við AFP. AFP

Rhee sagði þessa gagnrýni ekki ná til sín. Vegna reynslu hans úr hernum var hann fenginn til þess að stofna sína eigin alþjóðlegu hersveit í Úkraínu. Hann segir nokkuð ljóst „hverjir góðu gaurarnir eru og hverjir eru þeir vondu.“ Vísar hann þá til þess að hann hafi barist með Úkraínu, á móti Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert