Stjórnvöld í Japan hafa hvatt fólk í höfuðborginni Tókýó og nágrenni til að draga úr rafmagnsnotkun í dag. Hitabylgja gengur yfir svæðið og er orkuskortur af þeim sökum.
Gert er ráð fyrir því að álagið á raforkukerfið verði mjög mikið síðdegis að japönskum tíma. Fólk er hvatt til að slökkva ljós en notast við loftkælingu.
Hitinn í miðborg Tókýó fór yfir 35 gráður um helgina en í borginni Isesaki, norðvestur af höfuðborginni, féll met þegar hitinn fór í 40,2 gráður.
Fólk er hvatt til að slökkva ljós frá klukkan þrjú að staðartíma í þrjár klukkustundir.
Orkuframleiðsla í landinu hefur verið lítil undanfarna mánuði eftir jarðskjálfta í mars sem varð þess valdandi að slökkva þurfti á nokkrum kjarnorkuverum.