Selenskí segir árásina hryðjuverk

Slökkviliðsmenn að störfum í brunarústunum.
Slökkviliðsmenn að störfum í brunarústunum. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur fordæmt flugskeytaárás Rússa á verslunarmiðstöð í borginni Krementsjúk og sagði hana hryðjuverk. Að minnsta kosti þrettán hafi látist í árásinni.

„Árás Rússa á verslunarmiðstöðina í Krementsjúk í dag er eitt svívirðilegasta hryðjuverk í sögu Evrópu,“ sagði Selenskí í kvöldútsendingu sinni á samskiptamiðlinum Telegram.

„Friðsæll bær, venjuleg verslunarmiðstöð – konur, börn, venjulegir borgarar inni,“ bætti hann við. 

Árásin tímasett á annatíma

Yfir þúsund manns voru í versl­un­ar­miðstöðinni þegar árás­in var gerð, en hún stóð í ljós­um log­um í kjöl­farið. 

Varnarmálaráðuneyti Úkraínu sagði fyrr í dag að árásin í Krementsjúk hefði verið vísvitandi tímasett, þannig að hún ætti sér stað á mesta annatíma verslunarmiðstöðvarinnar, svo fjöldi fórnarlamba yrði meiri.

AFP

Fleiri árásir í dag

Átta almennir borgar fórust í flugskeytaárás Rússa í Lísítsjank þegar þeir voru að sækja sér vatn að sögn ríkisstjóra Lúgansk-héraðs. Önnur árás átti sér einnig stað í Karkív í dag en þar létust fjórir og nítján slösuðust, þar á meðal fjögur börn.

Úkraína hefur óskað eftir fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna árásanna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert