Norska lögreglan hefur beðið skipuleggjendur fjölmenns viðburðar á Ráðhústorginu í Ósló vegna skotárásarinnar í borginni aðfaranótt laugardags um að hætta við hann. Einnig hefur lögreglan hvatt almenning til að mæta ekki.
Lögreglan hafði verið í samskiptum við skipuleggjendur viðburðarins eftir að hann var ákveðinn í gær. Vegna þess að búist er við mun fleira fólki en talið var í fyrstu mælir lögreglan núna með því að hætt verði við hann.
„Lögreglan hefur átt í samtali við skipuleggjendur viðburðarins á Ráðhústorgi og mælir ekki með því að hann verði haldinn. Við biðjum almenning einnig um að taka þetta til greina,“ sagði í tölvupósti lögreglunnar til Aftenposten.
Hryðjuverkaógn er mikil í Noregi vegna árásarinnar, að mati lögreglunnar og er hættustigið komið í 5 af 5 mögulegum.
Halda á viðburðinn klukkan 21.30 í kvöld að íslenskum tíma. Í fréttatilkynningu kom fram að „fagna skal ást og fjölbreytileika og ekki skal ógna því með þögninni“.