101 árs fangavörður nasista í fimm ára fangelsi

Josef Schuetz felur andlit sitt er hann mætir í íþróttasal …
Josef Schuetz felur andlit sitt er hann mætir í íþróttasal í Brandenburg þar sem réttarhöldin fóru fram. AFP

Þýskur dómstóll hefur dæmt 101 árs gamlan fyrrverandi vörð í útrýmingarbúðum nasista í fimm ára fangelsi.

Hann er elsta manneskjan sem réttað hefur verið yfir vegna aðildar að stríðsglæpum á meðan á helförinni stóð.

Josef Schuetz var fundinn sekur um aðild að morðum þegar hann starfaði sem fangavörður í búðunum Sachsenhausen í Oranienburg, norður af Berlín, á árunum 1942 til 1945.

Schuetz, sem býr í ríkinu Brandenburg, lýsti yfir sakleysi sínu og sagðist hafa gert „alls ekki neitt“.  Einnig kvaðst hann ekkert hafa vitað af þeim hræðilegu glæpum sem voru framdir í búðunum.

Aðild að 3.518 morðum

„Ég veit ekki hvers vegna ég er hérna,“ sagði hann við lok réttarhaldanna í gær.

Saksóknarar sögðu aftur á móti að hann hefði „með fullri vitund og vilja“ tekið þátt í morðum á 3.518 föngum í búðunum og fóru þeir fram á fimm ára dóm yfir honum.

Yfir 200 þúsund manns, þar á meðal gyðingar, Rússar, Rómafólk, andstæðingar stjórnvalda og samkynhneigðir voru í haldi í Sachsenhausen-búðunum á árunum 1936 til 1945.

Tugir þúsunda fanga voru myrtir, létust af völdum vinnuþrælkunar, læknistilrauna, hungurs eða sjúkdóma áður en sovéskir hermenn frelsuðu þá sem þar voru inni undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert