Átta ára gamall drengur sem hafði verið týndur í átta daga fannst í holræsi í Þýskalandi um 300 metra frá heimili sínu.
Drengurinn, sem hefur verið kallaður Joe, hvarf úr garði við hús sitt í Oldenburg 17. júní en fannst síðan síðasta laugardag þegar vegfarandi heyrði hljóð sem komu frá holu í jörðinni, að því er BBC greinir frá.
Lögreglan hefur útilokað að nokkuð glæpsamlegt hafi átt sér stað og segir drenginn hafa skriðið inn í holræsi daginn sem hann hvarf. Talið er að hann hafi síðan týnt áttum í holræsiskerfinu.
Eftir að slökkviliðsmenn drógu drenginn upp úr holræsinu var hann fluttur á sjúkrahús með ofkælingu en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg.
„Þökk sé ábendingu frá almenningi tókst okkur að finna Joe í holræsiskerfi,“ sagði lögreglustjórinn Johann Kühme.
„Það sem skiptir mestu máli er að hann er á lífi og var strax fluttur á sjúkrahús þar sem hann er í góðum höndum. Við getum öll andað léttar,“ bætti hann við.
Faðir drengsins sagði við fjölmiðla á svæðinu að Joe væri „að standa sig vel“ miðað við aðstæður.