Atlantshafsbandalagið mun formlega bjóða Finnlandi og Svíþjóð að ganga í bandalagið, þar sem ríkin hafa komist að samkomulagi við Tyrki. Frá þessu greindi Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO í dag.
„Það gleður mig að kynna að nú höfum við náð samkomulagi, sem gerir Svíþjóð og Finnlandi kleift að ganga í NATO,“ segir hann. Tyrkir höfðu hreyft við mótmælum vegna inngöngunnar en samþykki allra NATO-ríkja þarf til þess að ríki geti gengið inn í bandalagið.
Tyrkland, Finnland og Svíþjóð hafa undirritað samkomulag þar sem meðteknar eru áhyggjur Tyrkja vegna inngöngunnar, hvað varðar vopnaflutning og hryðjuverk.
Leiðtogar Finnlands og Svíþjóðar hittu Erdogan Tyrklandsforseta fyrir leiðtogafund NATO-ríkjanna í Madríd, sem fram fer á morgun, til þess að gefa honum færi á að koma á framfæri mótmælum vegna umsóknar ríkjanna um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Erdogan hefur mótmælt aðild ríkjanna þar sem stjórnvöld í Ankara hafa sakað Finnland og Svíþjóð um að skjóta skjólshúsi yfir kúrdíska hermenn, sem hafa átt í átökum við tyrknesk stjórnvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.