Ótti við lögregluofbeldi og árásir andstæðinga þungunarrofs í garð stuðningsfólks sjálfsákvörðunarréttar kvenna, fer vaxandi eftir fjölda atvika sem komið hafa upp á mótmælum gegn ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna um að afnema réttinn til þungunarrofs í landinu. The Guardian greinir frá.
Þúsundir hafa komið saman víða um Bandaríkin og mótmælt dómi Hæstaréttar sem féll á föstudag, en þá var snúið við næstum hálfrar aldar dómafordæmi varðandi sjálfsákvörðunarrétt kvenna í tengslum við þungunarrof. Bann við þungunarrofi var því heimilað og í kjölfarið hefur löggjöf sem bannar þungunarrof kvenna verið tekin upp í á annan tug ríkja.
Mótmælin hafa verið friðsæl en þrátt fyrir það hefur lögreglan í mörgum ríkjum beitt mótmælendur ofbeldi. Þá hefur verið ráðist á mótmælendur og bíl keyrt inn í hóp mótmælagöngu.
Lögreglan í Arizona beitti til að mynda táragasi á mótmælendur og fjarlægði þá með valdi af opinberum stöðum. Sagðist lögregla hafa óttast að mótmælendur kæmust inn í þinghúsið þegar mótmæltu þar fyrir framan.
Á þriðja tug mótmælenda voru handteknir í New york á mætmælum við Washington Square Park, Union Square og fyrir framan NewsCorp bygginguna, höfuðstöðvar FOX News fréttastofunnar.
Í Greenville í Suður-Karólínu voru sex mótmælendur handteknir eftir átök við lögreglu. Á myndbandsupptöku sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum sést hvar lögreglumaður hótar konu með rafbyssu og hendir eldri manni í götuna.
Þá var pallbíl ekið í gegnum hóp mótmælenda í Cedar Rapids í Iowa með þeim afleiðingum að einhverjir særðust og ein kona var lögð inn á sjúkrahús. Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um atvikið, en nýlega var það lögleitt í ríkinu að ökumenn mættu aka á mótmælendur undir ákveðnum kringumstæðum.
Í Los Angeles var leikkonan Jodie Sweetin umkringd af lögreglumönnum og snúin niður í götuna fyrir framan fjölda mótmælenda.
Í yfirlýsingu sem leikkonan sendi frá sér í kjölfarið sagði hún að aðgerðirnar myndu halda áfram þar til raddir mótmælenda myndu heyrast og gripið yrði til aðgerða. „Þetta dregur ekki úr okkur kjarkinn, við munum halda áfram að berjast fyrir réttindum okkar. Við erum ekki frjáls fyrr en við öll erum frjáls.“
Þá hafa blaðamenn í Los Angeles greint frá því að lögregla hafi beitt þá ofbeldi. Fréttakonan Tina Desiree Berg segir lögreglu hafa stjakað við sér fyrir að hún væri með blaðamannaskírteinið sitt um hálsinn. Á myndbandsupptöku sést einnig hvernig lögregla hrindir blaðamanninum Samuel Braslow.
Lögreglan tjáði sig um annað atvikið í yfirlýsingu til The Guardian þar sem fram kom að farið yrði yfir málið og metið hvort það stríddi reglum og verklagi innan lögreglunnar.