Frænka Pútíns og sá næstríkasti beitt þvingunum

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fyrir utan Downingstræti 10.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fyrir utan Downingstræti 10. AFP

Bretar hafa efnt til nýrra viðskiptaþvingana í tengslum við stríðið í Úkraínu, þar á meðal gegn Vladimir Potanin, næstríkasta manni Rússlands.

Potanin „heldur áfram að sanka að sér auði“ eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði innrásina, sagði ríkisstjórn Bretlands.

Franski bankinn Societe Generale gekk í síðasta mánuði frá sölunni á rússnesku útibúi sínu Rosbank til fjárfestingarfyrirtækis sem Potanin stofnaði.

Potanin er einnig einn af eigendum rússneska námurisans Norilsk Nickel. Tímaritið Forbes segir hann næstríkasta einstaklinginn í Rússlandi og voru auðæfi hans í fyrra metin á 27 milljarða dala.

Bretar hafa einnig beitt Önnu Tsivilevu, frænku Pútíns, viðskiptaþvingunum. Hún er yfirmaður rússneska kolanámufyrirtækisins JSC Kolmar Group.

„Viðskiptaþvinganirnar í dag sýna að ekkert og enginn er utan seilingar, þar á meðal innsti hringur Pútíns,“ sagði talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar í yfirlýsingu.

„Svo lengi sem Pútín heldur áfram hryllilegum árásum sínum á Úkraínu munum við halda áfram að beita þvingunum til að veikja rússnesku hervélina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert