Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefði ekki ráðist inn í Úkraínu ef hann væri kona. Þetta fullyrðir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
„Ef Pútín væri kona –sem hann er augljóslega ekki – en ef hann væri það, þá held ég að hann hefði aldrei farið í þessar brjáluðu karlrembuárásir og ofbeldisfulla stríð á þann hátt sem raun ber vitni um,“ sagði Johnson við þýsku útvarpsstöðina ZDF í gærkvöldi.
Þá sagði hann innrásina „fullkomið dæmi um eitraða karlmennsku.“
Johnson kallaði jafnframt eftir betri menntun fyrir stúlkur um allan heim og því að fleiri konur myndu setjast í valdastóla.
Breski forsætisráðherrann sagði að auðvitað vonaðist fólk til þess að stríðinu færi að ljúka en að endir þess væri ekki í augsýn. „Pútín er ekki að bjóða fram frið.“
Þá sagði Johnson jafnframt að vestrænir bandamenn Úkraínu yrðu að styðja við landið til þess að það gæti verið í bestu mögulegu stöðu til þess að friðarviðræður við rússnesk stjórnvöld verði mögulegar.