Norðmenn ætla að útvega Úkraínumönnum þrjú eldflaugakerfi, en stutt er síðan Bretar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn ákváðu slíkt hið sama.
Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hafa ítrekað beðið samherja sína um að útvega þeim aukinn stórskotabúnað, enda hafa úkraínskir hermenn átt vandræðum með að verjast árásum Rússa á Donbass-svæðinu í austurhluta landsins.
„Við verðum að halda áfram að styðja við bakið á Úkraínu til að þeir geti barist fyrir frelsi sínu og sjálfstæði,“ sagði Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, í yfirlýsingu.
Eldflaugakerfið, sem getur skotið mörgum eldflaugum á skömmum tíma, er nákvæmara og langdrægara en þau vopn sem Rússar hafa notað í stríðinu.
Byssur verða einnig sendar til Úkraínu í samstarfi við Breta, auk þess sem Norðmenn ætla að senda Úkraínumönnum fimm þúsund handsprengjur til viðbótar þeim fimm þúsundum sem þeir hafa nú þegar útvegað þeim.