Mariu Ressu, einum þekktasta blaðamanni Filippseyja og nóbelsverðlaunahafa, var í dag skipað að loka fréttamiðli sínum. Ressa segist ætla að halda fréttasíðunni gangandi.
Skipunin til Ressu barst í dag, degi áður en Rodrigo Duerte, forseti Filippseyja, á að hætta sem forseti Filippseyja.
Ressa hefur gagnrýnt Duerte opinskátt og mannskætt stríð hans gegn fíkniefnum sem hófst árið 2016. Gagnrýni Ressu hefur orðið til þess að hún hefur ítrekað verið ákærð og netárásir hafa verið gerðar gegn henni og fréttamiðli hennar, Rappler. Duterte hefur sagt Rappler „falsfréttamiðil“. Hann lét ummælin falla eftir að Rappler birti frétt um einn af hans nánustu ráðgjöfum.
Filippseysk stjórnvöld segja að afturköllun á leyfi Ressu til þess að halda úti fjölmiðli hafi verið framkvæmd vegna „lagalegra takmarkana á erlendu eignarhaldi fjölmiðla.“
Rappler gaf það út í kjölfarið að ákvörðunin væri mjög óvanaleg og að með henni ætti að loka miðlinum. Þá sagði í yfirlýsingu frá miðlinum að forsvarsmenn hans muni kæra ákvörðunina.
Ressa hét því aftur á móti að fréttasíðan myndi halda áfram störfum á meðan málið væri enn í lögfræðilegu ferli.
„Við höldum áfram að vinna, þetta er bara þetta sama gamla,“ sagði Ressa við blaðamenn og að auki: „Við getum bara vonað það besta.“