Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að senda aukinn herafla til Evrópu til stuðnings Atlantshafsbandalaginu, NATO. Hann segir meiri þörf fyrir bandalagið núna en nokkru sinni fyrr.
NATO verður „styrkt í allar áttir og á öllum svæðum – í lofti, láði og legi,“ sagði Biden á ráðstefnu bandalagsins í Madríd, höfuðborg Spánar.
Biden, sem var á fundi með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, sagði meðal annars að bandarískum tundurspillum verður fjölgað úr fjórum í sex í bænum Rota á Spáni, bækistöðvar fyrir bandaríska hermenn verða til frambúðar í Póllandi, þrjú þúsund hermenn verða fluttir til Rúmeníu ásamt tvö þúsund manna hópi til viðbótar og loftvarnir verða efldar í Þýskalandi og á Ítalíu.
„Saman ætlum við að tryggja að NATO verði tilbúið til að takast á við ógnir úr öllum áttum og á öllum svæðum,“ sagði Biden.
Hann sagði Pútín Rússlandsforseta hafa eyðilagt friðinn sem ríkti í Evrópu og að Bandaríkin og samherjar þeirra ætli sér að bregðast við.
„Við ætlum að taka skref upp á við og sanna að það er meiri þörf fyrir NATO en nokkru sinni fyrr og bandalagið hefur aldrei verið mikilvægara.“