Segir af sér eftir fyllerí í gærkvöldi

Pincher er til vinstri á myndinni.
Pincher er til vinstri á myndinni. Ljósmynd/Facebook-síða Chris Pincher

Chris Pincher, varaþingflokksformaður Íhaldsflokksins í Bretlandi, hefur sagt sig frá því starfi í kjölfar þess að hafa að eigin sögn drukkið of mikið og „gert sjálfan sig og aðra að athlægi“. 

„Ég hef smánað sjálfan mig og aðra, sem er það síðasta sem mig langar til þess að gera. Fyrir það biðst ég afsökunar, bæði gagnvart ykkur og þeirra er málið snertir,“ segir í afsagnarbréfi Pinchers.

Í umfjöllun breskra miðla er Pincher gefið að sök að hafa í ölæði sínu veist að tveimur gestum einkasamkvæmis Carlton-klúbbsins í Piccadilly, klúbbi sem aðeins er hugsaður fyrir meðlimi Íhaldsflokksins sem var, þar til árið 2008, aðeins ætlaður körlum.

Fullyrt er meðal annars að Pincher hafi „þuklað“ á gestunum tveimur.

Afsagnarbréfið.
Afsagnarbréfið.

Kom aftur í baðsloppi

Er þetta í annað skipti sem Pincher lætur af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn vegna máls af slíkum toga. Hann var sakaður um óviðeigandi háttsemi í garð Alex Story, ólympíufara í róðri sem einnig er í Íhaldsflokknum, þegar Story var 26 ára.

Þar á hann að hafa reynt að hneppa frá skyrtu Storys og nuddað á honum hálsinn og um leið sagt: „Þú munt komast langt í Íhaldsflokknum.“ Story tjáði Daily Mail að á einum tímapunkti hafi Pincher yfirgefið herbergið til þess að skipta um föt og komið aftur í baðsloppi, líkt og „tíkalls-útgáfa af Harvey Weinstein“.

Pincher mun þó ekki láta af þingmennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert