TikTok segist ekki deila gögnum með Kína

Samfélagsmiðillinn TikTok er einn af þeim allra vinsælustu.
Samfélagsmiðillinn TikTok er einn af þeim allra vinsælustu. AFP

TikTok hefur tilkynnt þingmönnum bandarísku öldungadeildarinnar að samfélagsmiðillinn deili ekki gögnum með Kommúnistaflokknum í Kína. Þetta kemur fram í skriflegu svari TikTok við fyrirspurn níu þingmanna repúblikana.

Tiktok reynir í svarinu að sannfæra þingmennina um að fyrirtækið reyni allt sem það geti til að takmarka aðgang aðila utan Bandaríkjanna að gögnum bandarískra notenda. Segir TikTok að jafnvel sé takmarkaður aðgangur starfsmanna kínverska móðurfyrirtækis samfélagsmiðilsins, ByteDance.

Takmarkaður aðgangur

TikTok hefur áður tilkynnt bandaríska þinginu að það geymi öll gögn sem verði til við notkun samfélagsmiðilsins á netþjónum í Bandaríkjunum, sem eru reknir af bandaríska fyrirtækinu Oracle.

Í svari TikTok við fyrirspurn þingmannanna kemur fram að starfsmenn fyrirtækisins í Kína séu með aðgang að hluta gagnanna en til þess þurfi samþykki öryggisteymis fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Fyrirtækið ítrekar að Kommúnistaflokkurinn í Kína hefði aldrei óskað eftir bandarískum gögnum frá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert